Félagið Píratar í Reykjavík, svæðisbundið aðildarfélag Pírata, var stofnað formlega í dag. Ákveðið var á fundinum að félagið ætti að bjóða fram lista í nafni Pírata í borgarstjórnarkosningum 2014. Kosið verður um listann í netkosningu meðal félagsmanna. Opið er fyrir framboð áhugasamra en tímasetning listakosningar verður nánar auglýst síðar. Þetta kemur fram á vefsíðu Pírata.
Halldór Auðar Svansson var kjörinn formaður. Aðrir í stjórn eru Hildur Sif Thorarensen, Þórlaug Ágústsdóttir, Jóhann Haukur Gunnarsson og Aron Ívarsson. Varamenn í stjórn eru Arndís Einarsdóttir, Kjartan Jónsson, Markús Wilde, Sigmundur Þórir Jónsson og Guðmundur Páll Kjartansson.