Enn er mikil snjókoma í Jerúsalem. Bjarni Freyr Björnsson er staddur þar í borg og tók myndir sem fanga andrúmsloftið þar.
Hann segir marga vera strandaglópa í borginni. „Það er sagt að þetta gangi yfir í dag og við vonumst til þess að vegirnir verði opnaðir á morgun svo við getum haldið ferðinni áfram. Margir hér eru þó glaðir að fá snjó,“ segir Bjarni.
Þetta er snjóþyngsti vetur í Ísrael í áratugi og eru margir vegir lokaðir, til dæmis á milli Ísraels og Palestínu. Þá hafa flóð vegna mikillar úrkomu valdið miklum óþægindum á Gaza-ströndinni. Samkvæmt Hamas-liðum þá er búið að bjarga um fimm þúsund manns eftir að flætt hafði inn á heimili þeirra.
Samkvæmt AFP-fréttastofunni voru 45 bæir og þorp innlyksa og bjarga þurfti um 200 ökumönnum úr sjálfheldu síðustu nótt. Þá voru tæp 30 þúsund heimili í Ísrael án rafmagns. Fólk var hvatt til þess að halda sig innandyra þar sem fallin tré sköpuðu mikla hættu á vegum.
Önnur Mið-Austurlönd fyrir hafa ekki farið varhluta af snjókomunni en mikill snjór í Egyptalandi hefur sett samgöngur þar úr skorðum.
Margir strandaglópar í Jerúsalem
Veðurteppt á hóteli í Jerúsalem