Ísland mun leita leiða til að fá Evrópusambandið til að standa við samninga vegna IPA-styrkja. Þetta kom fram í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun þar sem Birgir Ármannsson, formaður utanríkisnefndar, og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, ræddu málin.
Birgir sagðist gera ráð fyrir að ESB þyrfti með einhverjum hætti að bæta fyrirtækjum og stofnunum það samningsrof sem hefði orðið. Hann sagði að nú stæði yfir lögfræðileg athugun þar sem kannað væri hvað best væri að gera í stöðunni.
Össur sagði að hvað sem utanríkisráðherra þætti um styrkina hefðu verkefnin nánast verið hafin. „... og ég tel að þetta hafi verið diplómatískur klaufaskapur sem ryður í burtu 6 og hálfum milljarði alls,“ sagði hann.
Þegar formlegt hlé var gert á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið barst svar frá framkvæmdastjórn sambandsins þar sem áréttað var að skilyrði fyrir IPA-aðstoð væri að viðtökulandið stefndi að inngöngu og því hefði verið hætt við IPA-verkefnin sem fyrirhuguð voru hér á landi.