Ekki eru lengur taldar líkur á að jarðgas sé að finna í Skjálfandaflóa. Orkustofnun hefur fengið niðurstöður úr greiningum sem gerðar voru á kjarnasýnum úr borunum í haust.
Niðurstöðurnar voru skýrar, engin ummerki um jarðgas eða jarðolíu fundust.
Orkustofnun stefnir að því að snúa sér næst að Öxarfirði en þar hefur verið sýnt fram á tilvist hitaummyndaðs gass. Tilgangurinn er að áætla mögulegt hámarksflatarmál auðlindarinnar. Ljóst er þó að það er mun minna svæði en hefði verið undir ef jarðgas hefði einnig fundist í Skjálfandaflóa.