Ekki búið að slá Helguvík af

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er ekki búið að slá þetta verkefni af þannig að því sé haldið til haga og við skulum á meðan að svo hefur ekki verið gert gera ráð fyrir því að það sé verið að vinna að því af fullum hug,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Alþingi í dag varðandi áform um álver í Helguvík á Reykjanesi. Hún sagði það sem mestu máli skipti í því sambandi væri að fá niðurstöðu í það hvort af þeim framkvæmdum yrði eða ekki.

Ráðherrann var þar að svara fyrirspurn frá Katrínu Júlíusdóttur, varaformanni Samfylkingarinnar. Katrín sagði að á síðasta kjörtímabili hefðu núverandi stjórnarflokkar sagt að áform um álver í Helguvík strönduðu á þáverandi vinstristjórn. Nú væri hins vegar að koma á daginn að áformin væru að sigla í strand vegna þess að þau teldust ekki arðbær miðað við núverandi aðstæður. Fyrir vikið yrði ekkert af þeim. Spurði Katrín að því hvernig núverandi ríkisstjórn hefði tekist að klúðra málinu. Hún hafnaði því að einhverjar hindranir hafi verið í vegi fyrir álveri í Helguvík í tíð fyrri ríkisstjórnar eins og haldið hafi verið fram á síðasta kjörtímabili. Yfirlýsingar um annað hafi einfaldlega verið orðin tóm og lýðskrum.

Ragnheiður benti á að munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeirri fyrri gagnvart málinu væri meðal annars sú að núverandi stjórn væri einhuga að baki verkefninu. Ef í ljós kæmi að ekki væri vilji hjá fyrirtækjunum sem stæðu að verkefninu að halda því áfram væri það ekki stjórnvalda að þrýsta á þau að halda því áfram án aðkomu þeirra. Þær hindranir hafi verið fyrir hendi í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið skortur á pólitískum stuðningi við verkefnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka