Ritstjóri og blaðamaður greiði bætur

Reynir Traustason ritstjóri DV
Reynir Traustason ritstjóri DV mbl.is/Sigurður Bogi

Ritstjóri DV og blaðamaður sama miðils hafa verið dæmdir til að greiða Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byrs sparisjóðs, 300 þúsund krónur í miskabætur, 400 þúsund krónur til að standa straum af birtingu dómsins og 1,4 milljónir króna í málskostnað vegna ummæla sem féllu í DV um hann. Ýmis ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Jafnframt skulu forsendur og dómsorð birt í næsta tölublaði DV, að viðlögðum dagsektum.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þessari niðurstöðu í dag. Jón Þorsteinn höfðaði málið á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni blaðamanni DV og Reyni Traustasyni ritstjóra sama blaðs vegna umfjöllunar sem birtist 12. nóvember 2012 í DV um að Jón Þorsteinn hefði flutt fjármagn úr landi með lánveitingum í erlendum gjaldeyri til bresks félags. Fyrirsögnin var „Laumaði stórfé úr landi“.

Fram kom í málinu að féð sem Jón Þorsteinn lánaði kom ekki frá Íslandi heldur mun það hafa verið millifært í erlendum gjaldmiðlum frá Danmörku til Bandaríkjanna. Við málflutning var viðurkennt að misskilningur blaðamanns hefði valdið rangfærslu í greininni. Einnig að fjárhæðir séu mun lægri en nefndar voru í fréttinni.

„Af öllu sem fram er komið í málinu verður ekki betur séð en að umstefnd ummæli séu í öllum meginatriðum ósönn,“ segir í niðurstöðu dómsins. „Fjölmiðlaveitur gegna mikilvægu lýðræðishlutverki, njóta ríks tjáningarfrelsis og þjóna upplýsingarétti almennings, en jafnframt skulu þær gæta hófs og ábyrgðar þegar önnur mannréttindi, ekki síst jafnrétti og friðhelgi einkalífs, eru í húfi.“

Þá segir: „Stefndu hafa í máli þessu fullyrt að heimildir séu fyrir hendi um stórfellda fjármagnsflutninga úr landi, þó að það hafi reynst misskilningur að lánsféð frá stefnanda hafi komið frá Íslandi. Eftir að í ljós kom að stefnandi ætti þar ekki hlut að máli hefur lítið farið fyrir umfjöllun stefndu um þau umfangsmiklu viðskipti í trássi við gjaldeyrishöft, sem stefndu halda fram að verið hafi tilefni umfjöllunar þeirra og þeir hafi heimildir fyrir og sem gæti haft samfélagslega þýðingu að fylgja eftir. Því virðist það fremur hafa verið tilgangur fréttarinnar sem mál þetta snýst um að vekja athygli á stefnanda en gjaldeyrisviðskiptunum.“

Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert