Þingflokkur Bjartrar framtíðar vill að horfið verði frá niðurskurði til nýsköpunar, rannsókna og þróunar. Flokkurinn vill að fjárfestingar verði auknar til að efla skapandi greinar, grænan iðnað og ferðaþjónustu. Þá hvetur Björt framtíð til betri vinnubragða í tengslum við fjárlagavinnuna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjartri framtíð undir yfirskriftinni „Sókn skapar tekjur til framtíðar“.
Í tilkynningu segir, að þingflokkurinn leggi til að fjárframlög til Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs, markáætlunar á sviði vísinda og tækni, til sóknaráætlunar sveitarfélaga, Kvikmyndasjóðs, samkeppnissjóða ýmissa skapandi greina, Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og til verkefna á sviði uppbyggingar græna hagkerfisins verði auknar til samræmis við fyrirliggjandi fjárfestingaáætlun sem samþykkt var í fjárlögum síðasta árs.
Þingflokkur BF telur að skynsamlegar fjárfestingar í greinum sem geta vaxið og skapað ný tækifæri í útflutningi og stuðlað að fjölbreyttara atvinnulífi sé Íslendingum nauðsyn. Skapa verði auknar tekjur til framtíðar. Réttlætanlegt sé að verja hluta af arði af auðlindum eða hluta af tímabundnum skattstofnum, s.s. bankaskatti, til slíkra fjárfestinga sem skapa arð í framtíðinni. Einnig megi fjármagna uppbyggingu í ferðaþjónustu með því að innheimta 14% virðisaukaskatt af hótelgistingu.
Þingflokkurinn bendir á að mikil vinna hefur farið fram á undanförnum árum þar sem sóknarfæri Íslendinga hafa verið kortlögð. Rétt sé að verja fjármunum til slíkrar sóknar nú. Reynslan innanlands og reynsla annarra þjóða sýni að fjármunum sem varið er í samkeppnissjóði á sviði vísinda, tækni og skapandi greina og til skynsamlegrar uppbyggingar nýrra atvinnugreina skili sér margfalt til baka.
Þingflokkurinn hefur jafnframt lagt mikla áherslu á að fjárveitingar yrðu auknar til heilbrigðismála og styður breytingartillögur þess efnis. Hann leggst alfarið gegn niðurskurði til þróunarhjálpar.
Þingflokkurinn hvetur til betri vinnubragða í tengslum við fjárlagavinnuna. Þá sé nauðsynlegt að kafað sé í fjárlagagerðina af meiri dýpt en nú er, til þess að ná sem bestri nýtingu opinberra fjármuna. Nýrrar hugsunar er þörf, segir Björt framtíð í tilkynningu.