Tillaga bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði þess efnis að hefja undirbúning söluferlis á hlut bæjarins í HS Veitum var felld með sex atkvæðum gegn fimm á bæjarstjórnarfundi í seinustu viku.
Bærinn á 15% hlut í félaginu en fram kemur í greinargerð bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem Rósa Guðbjartsdóttir lagði fram, að verðmæti hlutarins sé um 1,5 milljarðar króna.
„Í ljósi fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem einkum felst í þungri skuldabyrði og háum fjármagnskostnaði er lagt til að hluturinn verði seldur,“ segir í greinargerðinni. Meirihluti bæjarstjórnar hefur hins vegar lýst því yfir að bærinn muni ekki selja hlut sinn í félaginu.