Fundur er hafinn hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilu Samtaka atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, vildi ekki tjá sig efnislega um tilboð samtakanna fyrir fundinn en sagðist vonast til þess að fundurinn yrði langur.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Samtök atvinnulífsins myndu kynna í dag samningstilboð sem kemur til móts við kröfur um sérstaka hækkun lægstu launa. Viðbrögð verkalýðsfélaga koma fram á samningafundum en fulltrúar félaga úti um landið hafa verið beðnir að vera í startholunum með að koma í bæinn, ef tillögurnar gefa tilefni til að ætla að samningar komist aftur á skrið.
Frá því að upp úr viðræðum SA og ASÍ slitnaði vegna þess að of mikið bar á milli tillagna um launahækkanir til lægst launaða fólksins hafa farið fram viðræður á vettvangi landssambanda. Jafnframt hafa verið óformlegar viðræður forystumanna, nú síðast um helgina.
„Það verður látið á það reyna [í dag] hvort unnt er að ná einhverju saman. Við erum að spila út hugmyndum sem við teljum koma til móts við lægsta endann. Hins vegar teljum við að krafa félaganna um grunnhækkun launa sé allt of há til að geta samrýmst forsendum um verðlagsstöðugleika,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að hreyfing þurfi að komast á málin til þess að hægt sé að setjast að samningum á ný. Það komi væntanlega í ljós á fundum sem ríkissáttasemjari hefur boðað til í dag. Samninganefnd ASÍ meti stöðuna í kjölfar þeirra.
ASÍ og SA vilja að ríkisvaldið breyti forsendum fjárlagafrumvarps, meðal annars til að draga úr áhrifum þess á verðlagsþróun. Þá hefur verið óskað eftir annarri útfærslu á tekjuskattslækkun.