„Ég er þroskaheftur,“ sagði Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, í umræðu um niðurstöður PISA-könnunarinnar á borgarstjórnarfundi í dag. „Ég er þroskaskertur. Þegar ég hóf mína skólagöngu þá var aðaláherslan lögð á að ég næði árangri í þrennu: að ég gæti klætt mig sjálfur, borðað sjálfur og þrifið mig sjálfur.“
Jón sagði mikilvægt að hlutir séu greindir og það sé eitthvert nafn yfir þá, að það séu erfiðleikar eða raskanir, að þeir hafi nafn, gildi og hægt sé að bregðast við þeim á viðeigandi hátt. Hann nefndi asperger-heilkenni, ADHD og einhverfuróf.
Borgarstjóri gerði svo óvænt hlé á ræðu sinni í miðri setningu og sagði: „Það er eitt sem mig langar að taka fram og er hluti af minni skerðingu. Það er skert tímaskyn og skilningur á tíma þannig að ég átta mig ekki á því, það er nefnilega búið að breyta ræðutímanum og tekur mig mjög langan tíma að venjast því, þannig að ég hef ekki tilfinningu fyrir því hvenær ræðutíma mínum lýkur.“
Hann brást við ræðu Sóleyjar Tómasdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna, þar sem hún kom inn á kynjajafnræði í skólum með þeim hætti að segja að það séu ólíkar áherslur á margan hátt. „Sumt af því er eðlilegt, sumt af því er skiljanlegt. Annað er óeðlilegt og sumt er ósanngjarnt og ákveðin mismunun, ástæðulaus mismunun.“
Jón sagði að það hefði verið sér mikið ánægjuefni þegar hann vaknaði upp á sjúkrahúsi fyrir nokkrum árum að þá komu að fimm læknar og allt konur.
Þá sagði Jón að í sínu tilviki hefði eitthvað farið úrskeiðis. „Ég held að það sé eitthvað sem hægt er að læra af til að forða öðrum frá því sama, og það skiptir mig ekki máli hvort það eru drengir eða stúlkur.“
Síðar í ræðu sinni sagði hann að borgarfulltrúar ættu að gera sér grein fyrir því hvað enskan hafi mikil áhrif, á íslenska tungu og samskipti manna á milli. Því ætti að efla enskukennslu á kostnað dönsku. „Við ættum að hætta að kenna dönsku. Ég tel hana úrelta í íslensku skólakerfi.“