Ekki vera á ferðinni að óþörfu

Hellisheiði. Mynd úr safni.
Hellisheiði. Mynd úr safni. mbl.is/Ómar

Vegfarendur eru beðnir um að veita því athygli að versnandi ferðaveður er nú á sunnanverðu landinu og hvattir til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Farið er að hvessa með tilheyrandi skafrenningi, hálku, snjó og versnandi skyggni. Nú þegar eru tveir bílar fastir á gatnamótum Þrengslavegar og Suðurlandsvegar í austur og hefur lögreglu borist tilkynning um að Lyngdalsheiði sé að verða ófær. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Selfossi.

Samkvæmt upplýsingum á vef Vegagerðarinnar er hálka og skafrenningur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á vefmyndavélum á vefsíðunni má einnig sjá að talsverð þoka er í Kömbunum og er skyggni því enn verra. Hálka eða snjóþekja er á velflestum vegum á Suðurlandi.

Fyrr í dag fór fólksbifreið út af Laugarvatnsvegi við Brekkuskóg vegna hálku. Engin slys urðu á fólki og var fólkið aðstoðað við að ná bifreiðinni aftur upp á veg af bónda í nágrenninu.

Versnandi ferðaveður er á suðunnanverðu landinu seint í dag og í kvöld. Hvöss suðaustanátt og rigning sunnan og suðaustantil en slydda á fjallvegum.

Hvessir norðaustantil með hálku, slyddu og jafnvel rigningu Norðaustanlands í kvöld. Við aðstæður sem þessar myndast mikil hálka þar sem snjór eða ís er fyrir á vegum.

Færð á vegum

Vetrarfærð er í öllum landshlutum, víðast hvar nokkur hálka eða snjóþekja. Hálkublettir og éljagangur eru á vegum á Reykjanesi en snjóþekja og éljagangur  á  Sandskeiði og  Hellisheiði.  Þungfært er  í Þrengslum en unnið að hreinsun. Hálka eða snjóþekja er  annars á velflestum vegum á Suðurlandi en þó er þæfingsfærð á fáeinum sveitavegum.

Á Vesturlandi og Vestfjörðum  er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum og éljagangur á Snæfellsnesi og á sunnanverðum Vestfjörðum.  Þæfingsfærð er á veginum um Heydal og á Skógarströnd. Á Norðurlandi  er hálka eða snjóþekja á  flestum leiðum.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum en þæfingsfærð á Öxi.  Hálka og éljagangur er síðan frá Djúpavogi og áfram suðausturströndinni að Kvískerjum en þar tekur við snjóþekja vestur í Vík.

Verið er að endurnýja rafkerfi í Múlagöngum og því má búast við umferðartöfum þar frá klukkan níu á kvöldin til sex að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Sjá staðsetningu hreindýra hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert