Hætt við umsóknina eða lengra hlé

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hvorki Evrópusambandið né Ísland hafa slitið viðræðum um inngöngu landsins í sambandið og staðan í þeim efnum er óbreytt frá því að gert var hlé á viðræðunum í kjölfar þingkosninganna síðastliðið vor. Þetta kom fram í máli Birgis Ármannssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns utanríkismálanefndar Alþingis, í umræðum í þinginu í dag.

Birgir var þar að svara fyrirspurn frá Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um stöðu viðræðnanna og hvort til stæði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald málsins. Lýsti Árni áhyggjum af samskiptum Íslands og Evrópusambandsins frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum og sagði mikilvægt að þau byggðust á heiðarleika og hreinskiptni. Þá sagði hann sína skoðun að klára ætti viðræðurnar og leggja niðurstöðu þeirra í dóm þjóðarinnar. Eðlilegt væri hins vegar að halda þjóðaratkvæði áður um framhald málsins.

Tilefni fyrirspurnar Árna voru ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á Alþingi í gær að Evrópusambandið hefði í raun lýst því yfir að viðræðunum væri hætt með því að ákveða að stöðva greiðslu IPA-styrkja til Íslands sem ætlað er að undirbúa ríki fyrir inngöngu í sambandið. Lýsti Árni furðu sinni á slíkri yfirlýsingu og tók hana sem dæmi um óeðlileg samskipti á milli Íslands og Evrópusambandsins. Spurði hann hvort annar hvor aðilinn hefði formlega slitið viðræðunum og svaraði Birgir því til sem áður segir að hvorugur hefði gert það.

Birgir sagði málið enn í sama farveg og áður. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands ynni að gerð skýrslu um stöðu umsóknarinnar sem síðan yrði lögð fyrir Alþingi og endanleg ákvörðun yrði tekin í framhaldi af því framhald málsins. Sá möguleiki væri fyrir hendi að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið formlega til baka eða framlengja hléið á viðræðunum ótímabundið. Hann benti ennfremur á að núverandi ríkisstjórn hefði lýst því yfir að hún ætlaði ekki að halda viðræðunum áfram. Hins vegar væri það skilyrði sett fyrir slíkri ákvörðun að þjóðin legði blessun sína yfir hana.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert