Fjölmörg umferðaróhöpp hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu í dag, en snjókoma og hálka hefur gert ökumönnum erfitt fyrir. Um 30 árekstrar höfðu verið bókaðir hjá Aðstoð & öryggi um kl. 17 í dag.
Óhöppin hafa verið af ýmsu tagi, aftanákeyrslur, árekstrar og þriggja bíla árekstrar. Einn ökumaður sá illa út um framrúðuna og ók inn á gatnamót og rakst þar á bíl.
Nokkuð harður árekstur varð á Álftanesvegi síðdegis. Draga þurfti báða bíla af vettvangi með kranabifreið.