Hjörtu safnara tóku kipp þegar þeir uppgötvuðu tíu þúsund króna seðil sem var merktur með bókstafnum Z. Almennt eru 10.000 króna seðlarnir merktir með bókstafnum H á undan raðnúmeri þeirra. Söfnurum er því ekki til setunnar boðið að þefa z-seðlana uppi.
Að sögn Sigurðar Pálmasonar, eiganda Safnaramiðstöðvarinnar, uppgötvaðist z-merkti seðillinn fyrir tilviljun. Það geri seðilinn aðeins meira spennandi fyrir safnara en það er margt sem þeir leita eftir.
„Þetta er náttúrlega nördismi alla leið. Menn safna bæði eftir númerum, undirskriftum og undirskriftum með ákveðnum númerum,“ segir Sigurður í Morgunblaðinu í dag.