Samkomulag hefur tekist um afgreiðslu þingmála fyrir þinglok. Samkomulagið felur m.a. í sér að desemberuppbót til atvinnuleitenda verður greidd, en kostnaður við þetta er áætlaður um 450 milljónir.
Greiðsla á desemberuppbót felur í sér að gerð verður breyting á fjáraukalagafrumvarpi. Aðrar breytingar verða ekki gerðar á því. Hins vegar verða gerðar nokkrar breytingar á fjárlagafrumvarpinu að kröfu stjórnarandstöðunnar.
„Við setjum fjármagn í myndlistarsjóð, hönnunarsjóð og fjárveitingu inn í rannsókarsjóð, samtals um 100 milljónir. Það er einnig samkomulag um að fella úr gildi komugjöld á sjúkrahús,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður sagði að þessar breytingar þýddu að fjárlög yrðu afgreidd með heldur minni afgangi er áður var áætlað.
Ragnheiður sagði að jafnframt væri samkomulag að skipa nefnd til að skoða hvernig skuli haga fæðingarorlofsréttindum til framtíðar litið. Sömuleiðis væri samkomulag um að skipa nefnd til að skoða veiðileyfagjöld á nýjar tegundir í íslenskri lögsögu.
„Ég er búinn að sitja yfir þessum mönnum dögum saman að reyna að koma vitinu fyrir þá og okkur tókst endanlega að fá þá til að samþykkja desemberuppbótina nú í kvöld. Það var hluti af samkomulagi um lok þingstarfa,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar á Facebook í kvöld.
Annarri umræðu um fjárlagafrumvarpið lauk kl. 23:50 í kvöld og var þingfundi slitið í framhaldi af því.