Á höttunum eftir hjúkrunarfræðingum

Margir íslenskir hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og læknar hafa farið í viðtal …
Margir íslenskir hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og læknar hafa farið í viðtal hjá Powercare á þessu ári. Ljósmynd/Powercare

Síðastliðið ár hafa hátt í fimmtíu íslenskir hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og læknar haldið til starfa í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrir fyrirtækið Powercare. Starfsmaður á vegum fyrirtækisins hefur á þessu ári komið einu sinni í mánuði til Íslands og rætt við þau sem hafa áhuga á að starfa fyrir fyrirtækið. Viðtölin fara fram í sendiráði Danmerkur á Íslandi.

Í svari við skriflegri fyrirspurn blaðamanns mbl.is til Lisbeth Sejer, framkvæmdastjóra Powercare, segir að fyrirtækið muni halda áfram að bjóða upp á viðtölin og leita að starfsfólki hér á landi á meðan áhuginn er til staðar. Hún segir íslenska starfsfólkið mjög vinsælt, sérstaklega í Noregi.

Háu launin eftirsóknarverð

„Viðskiptavinir okkar eru mjög ánægðir og hafa alltaf verið ánægðir með starfsfólk okkar,“ segir Lisbeth og bætir við að valið á starfsfólkinu sé vandað og því viti fyrirtækið að starfsfólkið sem sent er til annarra landa er meira en hæft til starfa. Aðspurð segir Lisbeth að laun heilbrigðisstarfsfólksins á vegum Powercare séu há, mun hærri en laun fyrir „venjulega“ átta klukkustunda vinnu. mbl.is greindi frá því fyrr á þessu ári að hjúkrunarfræðingar sem starfa í Noregi fá 5,5 milljónum meira í árslaun en þeir sem starfa á Íslandi.

Íslenska starfsfólkið sem heldur til starfa á Norðurlöndunum á vegum Powercare starfar að jafnaði í nokkrar vikur og heldur síðan aftur til Íslands þar sem það heldur heimili. Ef það kýs að halda til starfa í Sameinuðu arabísku furstadæmunum flytur það eðli málsins samkvæmt þangað, að minnsta kosti í þann tíma sem starfssamningurinn kveður á um, en fyrirtækið býður upp á tveggja ára starfssamning í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Starfsfólkið starfar á almennum og einkasjúkrahúsum í Skandinavíu, sem og á öldrunarheimilum, en á sjúkrahúsum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Í lok nóvember greindi Morgunblaðið frá því að sprenging hefði orðið í umsóknum íslenskra hjúkrunarfræðinga um starfsleyfi í Noregi. Þetta sagði Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Hann benti á að frá ársbyrjun 2008 og til september á þessu ári hafi 427 íslenskir hjúkrunarfræðingar fengið starfsleyfi í Noregi. Starfar hluti hópsins í báðum löndum.


Höfuðstöðvar Powercare
Höfuðstöðvar Powercare Ljósmynd/Powercare
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert