„Þar sem þetta er hugsað sem uppbót fyrir unnin störf verður að spyrja af hverju þetta er látið ná yfir atvinnuleitendur. Hvað með aðra hópa sem fá ekki slíka uppbót? Af hverju fá þeir ekki desemberuppbót?“ spurði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag en samkomulag varð í gær á milli stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðunnar um þinglok þar sem meðal annars er gert ráð fyrir að greidd verði desemberuppbót til atvinnuleitenda.
Karl benti ennfremur á að heimild væri í lögum um greiðslu desemberuppbótar til atvinnuleitenda en það væri hins vegar ekki skylda. „Auðvitað viljum við öll að atvinnulausir hafi það sem allra best um jólin eins og aðrir landsmenn. Það hlýtur hins vegar að þurfa að setja spurningarmerki við að farin skuli sú leið að greiða þeim desemberuppbót, ekki síst vegna eðlis þeirrar uppbótar. Desemberuppbót er samningsbundin bónusgreiðsla sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu. Þetta er greiðsla sem er greidd samkvæmt starfshlutfalli og starfstíma hverju sinni.“
Talsverð umræða skapaðist á Alþingi í upphafi þingfundar í dag um desemberuppbótina í tengslum við samkomulagið. Stjórnarandstæðingar fögnuðu því að hafa náð þeirri kröfu sinni fram að uppbótin yrði greidd. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði um gríðarlega stórt mál að ræða fyrir stóran hóp fólks. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar að mikilvægasta verkefnið í þeim efnum hlyti að vera að fækka þeim sem þyrftu á atvinnuleysisbótum að halda og þar með desemberuppbót með því að tryggja þeim atvinnu.