„Ég trúði matsfyrirtækjunum“

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson. Ómar Óskarsson

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í samtali við bandaríska tímaritið Foreign Affairs, að hann hafi hlustað á þá sem vöruðu við hruni á Íslandi árið 2007, en komist að þeirri niðurstöðu að fyrst matsfyrirtækin treystu íslensku bönkunum og erlendu bankarnir héldu áfram að lána til Íslands væri tæplega neitt að óttast.

Í viðtalinu er Ólafur Ragnar spurður hvenær honum hafi orðið ljóst að bankakerfið á Íslandi væri að hrynja. Hann segir að þetta hafi gerst á nokkrum dögum eða vikum. Í fyrstu hafi menn ekki gert sér grein fyrir að fall eins banka myndi leiða til þess að þeir féllu allir.

Gordon Brown ætlaði að gera eins og Thatcher

„Gordon Brown kom fram í sjónvarpi og tilkynnti heiminum að við værum gjaldþrota þjóð, sem var algjört bull og fráleit yfirlýsing. Ég vil ganga svo langt að kalla þetta efnahagslega hryðjuverkastarfsemi. Allir trúðu honum. Enginn trúði okkur. Ríkisstjórn Bretlands setti okkur á lista með al Qaeda og talibönum [þegar hún beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi]. Við erum einn af stofnaðilum Nató og traustur bandamaður Breta, við erum land án hers og ég hefði búist við að við værum síðasta þjóðin til að vera sett á slíkan lista. Þetta þýddi að lokað var á öll viðskiptatengsl íslenskra fyrirtækja við umheiminn.

Gordon Brown hefði aldrei þorað að lýsa yfir efnahagslegu stríði gegn Frakklandi eða Þýskalandi eða gegn nokkurri annarri stórri þjóð. Þetta var hans Falklandseyja-tækifæri og hann vonaðist eftir að skapa sér vinsældir eins og Thatcher gerði eftir Falklandseyja-stríðið.“

Trúði á velgengni íslensku bankanna

Ólafur Ragnar var spurður hvers vegna íslensku bönkunum hefði verið leyft að stækka svona mikið. Hann sagði að hafa yrði í huga að svo óheppilega hefði viljað til að bankarnir voru einkavæddir á sama tíma og gríðarlegt lánsfé streymdi frá hinu alþjóðlega bankakerfi. Hluti af þessu fjármagni hefði ratað til Íslands á þessum gróskumiklu tímum.

„Ég er oft spurður: „Af hverju trúðir þú á velgengni bankanna?“ Ég gerði það og ég studdi þá. Ég hjálpaði þeim að stækka. Það komu fram viðvörunarraddir árið 2007, frá sérfræðingum og ráðgjöfum og ég hlustaði á þá. En ég spurði sjálfan mig: „Hvað eru matsfyrirtækin að segja um íslensku bankana?“ Ég var fjármálaráðherra fyrir 20 árum og eins og margir fjármálaráðherrar taldi ég að matsfyrirtækin væru hinir eiginlegu dómarar um heilbrigði efnahagslífsins. Ég gerði þau mistök að trúa því sem þeir voru að segja um íslensku bankana vegna þess að þeir gáfu þeim mjög gott heilbrigðisvottorð. Matsfyrirtækin Moody’s, Standard & Poor’s, Fitch komust öll að þeirri niðurstöðu. Svo ég sagði við sjálfan mig: „Já, það eru menn með viðvaranir en þeir eru ekki matsfyrirtækin.“

Síðan leit ég á það sem máttarstólpar í evrópska og vestræna fjármálakerfinu, Deutsche Bank, Royal Bank of Scotland o.s.frv. voru að gera. Þeir voru allir í nánum fjárhagslegum tengslum við íslensku bankanna og voru að auka samvinnu við þá. Svo ég sagði, því miður, við sjálfan mig, að matsfyrirtækin og þessir máttarstólpar í vestrænu bankakerfi gætu ekki haft rangt fyrir sér.“

Viðtalið við Ólaf Ragnar í Foreign Affairs í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka