Framsóknarmenn sólgnir í hamborgarhrygg

Hamborgarhryggur er vinsæll jólamatur.
Hamborgarhryggur er vinsæll jólamatur. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

MMR kannaði hvað fólk ætlaði að borða í aðalrétt á aðfangadag á þessari jólahátíð. Nú sem endranær stefnir í að hamborgarhryggur verði langvinsælasti aðalrétturinn á borðum landsmanna á aðfangadag. Vinsældir hamborgarhryggs minnka þó aðeins frá því í fyrra. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 47,5% ætla að borða hamborgarhrygg á aðfangadag nú, borið saman við 52,1% í fyrra (2012).

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 11,7% ætla að borða kalkún sem aðalrétt á aðfangadag, 10,0% sögðust ætla að borða annað lambakjöt en hangikjöt, 6,8% sögðust ætla að borða rjúpur, 4,9% sögðust ætla að borða svínakjöt annað en hamborgarhrygg og 19,1% sögðust ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti.

Nokkur munur milli hópa 

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á því hvað fólk ætlaði að borða á aðfangadag jóla þetta árið eftir aldri, búsetu og stuðningi við stjórnmálaflokka.

Nokkuð dregur úr vinsældum hamborgarhryggs með auknum aldri en af þeim sem tóku afstöðu sagði meirihluti yngsta aldurshópsins (18-29 ára) ætla að hafa hamborgarhrygg á aðfangadag eða 53,5% borið saman við 48,2% í aldurshópnum 30-49 ára og 44,3% í aldurshópnum 50-67 ára og 34,7% í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri).

Kalkúnn er vinsælli á meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins en íbúa á landsbyggðinni. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 15,3% þeirra sem bjuggu á höfuðborgarsvæðinu ætla að hafa kalkún sem aðalrétt á aðfangadag, borið saman við 6,1% þeirra sem bjuggu á landsbyggðinni.   

Eins og ofangreindar upplýsingar gefa til kynna var hamborgarhryggur vinsæll á meðal stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka. Hamborgarhryggur virtist þó vera í sérlegu uppáhaldi meðal þeirra sem kváðust styðja Framsóknarflokkinn en af þeim sem tóku afstöðu og studdu þann flokk sögðust 69,0% borða hamborgarhrygg á aðfangadag, borið saman við 36,3% þeirra sem kváðust styðja Bjarta framtíð.

Þeir sem sögðust styðja Pírata voru óhefðbundnari í vali á aðalrétti á aðfangadag en stuðningsfólk annarra stjórnmálaflokka. Af þeim sem tóku afstöðu og kváðust styðja Pírata sögðust 39,2% ætla að borða eitthvað annað en fyrrgreinda kosti í aðalrétt á aðfangadag, borið saman við 9,5% þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn.

Upplýsingar um framkvæmd:

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 995 einstaklingar 
Dagsetning framkvæmdar: 13.-17. desember 2013

Hangikjöt er á borðum fjölmargra Íslendinga um jólin.
Hangikjöt er á borðum fjölmargra Íslendinga um jólin. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert