Frestar sameiningu heilbrigðisstofnana

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frestað verður áformum um sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni til næsta hausts. Þetta kom fram í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, á Alþingi í dag. Sagði hann að með því skapaðist meira svigrúm til samráðs vegna málsins.

„Sameining heilbrigðisstofnana og samþætting yfirstjórnar er vandasamt verkefni. Góð samvinna velferðarráðuneytisins við sveitarstjórnir og starfsfólk viðkomandi stofnana er forsenda þess að vel takist til,“ sagði ráðherra. Fyrir vikið hefði hann ákveðið að fresta setningu reglugerðar um sameiningu heilbrigðisstofnana. Sagðist hann gera ráð fyrir að sameiningin færi fram næsta haust.

„Með því skapast meira svigrúm fyrir samráð á milli ráðuneytis annars vegar og sveitarstjórna og heilbrigðisstarfsfólks hins vegar um stefnuna í samþættingu heilbrigðisstofnana. Markmiðið með samþættingu heilbrigðisstofnana er að nýta fjármuni betur en gert er og styrkja rekstrar- og stjórnunareiningar,“ sagði Kristján ennfremur.

Þannig yrði þjónustan við íbúana traustari og meiri og sérfræðiþjónusta betri og stöðugri. Þá skipti ekki minnstu að með sameiningu myndi ákvarðanataka færast í auknum mæli til heimamanna. Verkefnið væri skýrt. Að tryggja hagsmuni byggðalaga, auka öryggi íbúanna og fara betur með fjármuni.

„Ekkert annað býr að baki þessum áformum en einbeittur vilji til að styrkja heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert