Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur til rannsóknar atvik sem varð í Landeyjahöfn 28. nóvember síðastliðinn. Herjólfur var þá að koma þar til hafnar. Vestsuðvestan 12-16 m/s vindur var við höfnina, ölduhæð 2,1 m og meðalstraumur 1,4 sjómílur.
„Þegar skipið nálgaðist innsiglinguna fékk það óvænta öldu á sig og snerist til um 35° til bakborða. Skipstjóra tókst að rétta skipið á stefnu á milli garðanna en þá snerist það allt í einu aftur um 35° í sama borð og stefndi á vestari garðinn. Með snarræði tókst skipstjóra að rétta skipið og stýra því inn í höfnina. Talið er að afturendi skipsins hafi verið u.þ.b. 7 metra frá því að rekast á garðinn,“ segir í tilkynningu á heimasíðu rannsóknarnefndarinnar. Þess má geta að Herjólfur er 70,7 metra langur og 16 metra breiður. Málið hefur ekki verið tekið fyrir hjá rannsóknarnefndinni.
Þetta er í fjórða skiptið sem atvik tengt siglingu Herjólfs í Landeyjahöfn hefur verið tilkynnt til Rannsóknarnefndar sjóslysa og síðar Rannsóknarnefndar samgönguslysa frá því Landeyjahöfn var tekin í notkun árið 2010.