„Varðandi það hversu lengi þessi skattstofn kemur til með að lifa þá er það alveg rétt hjá háttvirtum þingmanni að það atriði er háð mikilli óvissu,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, formanni Bjartrar framtíðar, varðandi hækkun sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og niðurfellingu undanþágu fjármálafyrirtækja í slitameðferð vegna slíks skatts.
Guðmundur vakti athygli á því að ekki væri gert ráð fyrir að sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki skilaði áfram sömu tekjum nema næstu tvö árin. Enda væru þá bankarnir sem væru nú í slitameðferð ekki í þeim sporum lengur. Eftir það yrði að útvega þá fjármuni með öðrum hætti sem ekki lægi fyrir hvernig yrði gert. Sagði hann að svo virtist sem þar réði ríkjum það íslenska sjónarmið að hlutirnir redduðust.
Bjarni benti á að í greinargerð með frumvarpi um tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarpsins vegna ársins 2014 væri gengið út frá því að skattstofninn væri að minnsta kosti til tveggja ára. Ómögulegt væri þó að negla niður ákveðna tímalengd í þeim efnum. Hins vegar væri ljóst að töluvert miklar afskriftir þyrfti á íslenskum eignum þrotabúa bankanna til þess að hægt yrði að hefja afnám gjaldeyrishaftanna.
„Og þess vegna leyfi ég mér að segja að jafnvel þótt þessi skattstofn myndi á komandi árum hverfa, það er að segja að það myndi annað hvort ljúka uppgjöri fjármálafyrirtækja í slitum með nauðasamningi eða gjaldþroti eða öðrum hætti, þá mun verða til með einhverjum öðrum hætti skattstofn fyrir ríkið sem að minnsta kosti mun jafngilda því sem að bankaskatturinn stendur undir.“