Íslendingar björguðu fjölskyldu

Tveir Íslendingar, þeir Gunnar Þór Nilsen og Friðrik Elís Ásmundsson, björguðu í morgun rúmenskri fjölskyldu út úr brennandi íbúð í Árósum. Gunnar segir lætin í eldinum hafa verið óbærileg.

„Þetta var rosalegt. Ég var nýbúinn að skutla dóttur minni í skólann og var að búa um rúmið þegar ég leit út um gluggann og sá einhverja skrýtna birtu. Horfði beint út um gluggann þegar eldur er að byrja neðst í gardínunni,“ segir Gunnar.

Eftir smá stund áttaði hann sig á því að þarna væri eldur kviknaður í húsi nágrannans og hófst þá atburðarrás sem Gunnar segist enn vera að melta. Hann rauk í símann og hringdi á slökkviliðið og hljóp svo til Friðriks vinar síns sem er í heimsókn hjá honum og út.

„Ég vakti Frikka með látum og öskrum um að það væri eldur. Hann hélt að það væri eldur hjá okkur og það var mikið panikk. Við rukum bara í skó, út og yfir götuna. Þegar við komum að húsinu var einn maður kominn upp og er út á einhverskonar markisu. Það er allt að bráðna undan honum og hann stendur bara á næríunum. Við hjálpuðum honum niður. “

Hitinn var mikill og sprungu gluggarúður yfir Gunnar og Friðrik. „Það var svo mikil læti í eldinum. Ég fór inn í íbúðina, við brutum glugga inn í stofuna til að komast inn, og þar sáum við konu með lítið barn og hún horfði bara og skildi ekkert hvað var að gerast. Hún skildi ekkert hvað var að gerast en hún kom síðan út með okkur.“ 

„Hitinn var svo mikill að við hefðum ekkert geta verið lengur inn í íbúðinni því ég var bara að sviðna og hitinn frá reyknum var svo ofboðslegur að ef ég hefði verið þarna aðeins lengur þá hefði ég fuðrað upp - ég er að segja þér það.“

Gunnari fannst eins og það væri einhver annar inni í íbúðinni og stóð á öskrinu við stigann inn í húsinu. Skyndilega, úr kolsvörtum reyknum kom maður hlaupandi niður stigann sem Gunnari hafði tekist að vekja. „Hann var með reykeitrun. Nú er allt ónýtt hjá þeim og þau á næríunum.“

Fjölskyldan sem varð fyrir þessu er rúmensk, með nýfætt barn „og það er allt farið hjá þeim,“ segir Gunnar. Þetta er ungt par og var að fara heim til Rúmeníu eftir einhverja daga. Það er bara allt farið hjá þeim.“

Gunnar og Friðrik fóru með fjölskylduna ungu yfir í íbúðina þeirra þar sem þeir klæddu þau í íslenskar lopapeysur. „Við byrjuðum á því að setja barnið í lopapeysu og fundum einhverja gamla larfa. Það er skítakuldi hérna núna og rigning. Þetta var ákveðið ævintýri,“ segir hetjan Gunnar sem segist enn vera með púlsinn hátt uppi.

Þess má geta að Gunnar er með verkefni sem gengur út á að styrkja hann í að kaupa bóndabæ í Mols í Danmörku fyrir listamenn allsstaðar að úr heiminum. Hægt er að styrkja Gunnar og verkefnið hans hér. http://www.gofundme.com/Art-Farm-Prjoject

Eldurinn varð gríðarlegur á örskotsstundu.
Eldurinn varð gríðarlegur á örskotsstundu. Gunnar Þór Nilsen
Friðrik við sjúkrabílinn sem kom fljótt á vettfang.
Friðrik við sjúkrabílinn sem kom fljótt á vettfang. Gunnar Þór Nilsen
Eins og sést er íbúðin gjörónýt.
Eins og sést er íbúðin gjörónýt. Gunnar Þór Nilsen
Gunnar Þór Nilsen.
Gunnar Þór Nilsen.
Gunnar Þór Nilsen á tökustað rússnesku myndarinnar Calculator þar sem …
Gunnar Þór Nilsen á tökustað rússnesku myndarinnar Calculator þar sem hann hjálpaði rússnesku kvikmyndafyrirtæki. Vinnie Jones lék einmitt í myndinni. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka