Bjóráhugamenn um allan heim hafa tækifæri til að kynna sér íslenska bjórinn Bríó frá Borg en í nýrri uppfærslu af bókinni 1001 bjórtegund sem bragða ber á lífsleiðinni (e. 1001 Beers You Must Taste Before You Die) er hann að finna. Bríó er fyrsti íslenski bjórinn sem hlotnast þessi heiður. Bókin er á stundum nefnd biblía bjóráhugamannsins.
Bókin er skrifuð af bjórsérfræðingunum Adrian Tierny-Jones og Neil Morrisey og kom út á dögunum. Bókin er vel þekkt í heimi bjóráhugamanna og er með þekktari bjórbókum sem gefin er út.
Tierny-Jones er ekki alls ókunnugur bjórtegundum frá Borg því snemma á þessu ári skrifaði hann um Surt og dásamaði. Hann er meðal annars yfirdómari í Evrópuhluta World Beer Awards og hefur hann atvinnu af því að skrifa um bjór.
Í umfjölluninni um Bríó er saka bjórsins á Íslandi rakin í stuttu máli. Þá er fjallað um Ölgerðina, Borg og loks Bríó, uppruna bjórsins, nafngiftina og bragð hans.
Sturlaugur Jón Björnsson, bruggmeistari Borgar Brugghúss, bendir á að Bríó hafi þegar unnið gullverðlaun í stærstu bjórkeppnum heims og enn ein fjöðurin í hatt Bríó sé að komast á lista með hæstskrifuðustu bjórum veraldar. „Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu og þessi er sérstaklega skemmtileg fyrir okkur, enda um háttskrifaða bók með mikla alþjóðlega dreifingu að ræða. Það er greinilega gott að vera Bríó, eins og maðurinn sagði.“
Segja má að bókin komi út á hárréttum tíma fyrir Bríó sem er farin að skríða í hillur erlendis. Í júlí var gengið var frá samningum við Christopher Steward wine & Spirits í Kanada um að flytja inn og dreifa Bríó þar í landi. Bjórinn er kominn í verslanir víðsvegar um landið og fáanlegur á yfir hundrað sölustöðum.
Bríó er í dreifingu hjá kanadísku ríkissölunni í héruðunum Bresku Kolumbíu og Albertu auk þess sem hann er fáanlegur á völdum börum og veitingahúsum. Hann verður einnig fáanlegur í Saskatchewan frá og með snemma á næsta ári.
Þá hefur Ölgerðin tekið þá ákvörðun að flytja söluumboð fyrir Egils Gull í Kanada til söluumboð á Egils Gulli í landinu yfir til Christopher Stewart og hefur Gullið fengið listun og dreifingu í Manitoba og er nú þegar fáanlegt í verslunum í héraðinu.
Frétt mbl.is: Bríó sigraði í flokki þýskra pilsnera
Frétt mbl.is: Bríó seldist upp eftir sigurinn