Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í gær að senda deiliskipulagstillögu sem lýtur að norðaustur-suðvesturbraut Reykjavíkurflugvallar til borgarráðs.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni, og segir í bókun að þeir vildu senda hana til umsagnar og umfjöllunar í stýrihópi sem skipaður var samkvæmt samkomulagi ríkis og borgar 25. október. Ragna Árnadóttir fer fyrir stýrihópnum.
Tillaga sjálfstæðismanna um að senda tillöguna til stýrihópsins var felld. Í bókuninni segir m.a.: „Á meðan stýrihópurinn er starfandi hlýtur að vera eðlilegt verklag að vísa skipulagstillögum sem snúa beint að flugvellinum til hópsins. Sérstaklega hlýtur það að eiga við um tillögur sem takmarka valmöguleika við mat á framtíðarstaðsetningu vallarins.“