„Skil ekki hvers vegna þetta gerist“

Það var seint að kvöldi 9. september 2008 sem 29 …
Það var seint að kvöldi 9. september 2008 sem 29 palestínskir flóttamenn lentu í Keflavík eftir langt ferðalag frá Írak. 18 þeirra fá nú ríkisborgararétt en 11 ekki. mbl.is/Golli

Ahmad Al Hassan var 15 ára þegar hann kom sem flóttamaður til Íslands, ásamt móður sinni, litlu systur og 26 öðrum ríkisfangslausum konum og börnum úr Al Waleed-flóttamannabúðunum í Írak.

Ahmad verður nú veittur íslenskur ríkisborgararéttur, en ekki móður hans. Þau telja að það sé vegna þess að hún stóðst ekki íslenskupróf. Systir hans, sem er nú 17 ára, fær heldur ekki ríkisborgararétt því hún telst barn að aldri og umsókn hennar var sameiginleg með móður þeirra.

Getur ekki hitt barnabörnin sín

„Ég skil ekki hvers vegna þetta gerist,“ segir Ahmad. Niðurstaðan er mikil vonbrigði fyrir fjölskylduna, því án ríkisfangs fá móðir hans og systir ekki vegabréf. Án vegabréfs hafa þau ekki ferðafrelsi.

„Við vorum að bíða eftir ríkisborgararétti því við viljum fara til Bandaríkjanna að hitta systur mína sem er þar. Við erum ekki búin að hitta hana í fimm ár og hún á núna tvö lítil börn sem við höfum aldrei séð. Mamma mín hefur aldrei séð barnabörnin sín,“ segir Ahmad.

Það sé ekki síst þess vegna sem það séu fjölskyldunni svo mikil vonbrigði að hann einn fái ríkisborgararétt. „Þetta er svo langur tími sem við höfum ekki sést, fimm ár.“

Á erfitt með að æfa íslenskuna vegna veikinda

Alls fá ríkisborgararétt 18 af 29 úr hópi palestínskra flóttamanna sem kom saman hingað til lands árið 2008 í boði íslenskra stjórnvalda. Umsóknum 11 þeirra var hafnað, samkvæmt frumvarpi sem allsherjar- og menntamálanefnd lagði fram á Alþingi í gær. Allt er það fólk sem er ríkisfangslaust og hefur því ekki til annarra landa að hverfa.

Fjölskyldurnar hafa búið á Akranesi undanfarin fimm ár og una hag sínum vel. Ahmad talar sjálfur góða íslensku, en hann segir að móðir hans, sem er 54 ára gömul, eigi erfiðara með að læra málið, m.a. vegna veikinda sem hún glímir við.

„Ég hef reynt að kenna henni íslensku og hún horfir á íslenskt sjónvarp og skilur margt, en vandamálið er að hún fær mikið mígreni svo hún getur ekki unnið og á erfitt með að fara út þegar það er kalt. Þannig að hún getur ekki æft sig að tala íslensku og gleymir henni.“

Misjafnt hve miklar kröfur eru gerðar

Próf í íslensku er meðal þeirra skilyrða sem sett eru fyrir veitingu ríkisborgararéttar í lögum (nr. 100/1953). Þar er þó jafnframt mælt fyrir um undanþágur frá þessu skilyrði fyrir þá sem telja verði ósanngjarnt að gera kröfu til um íslenskukunnáttu.

Mörg dæmi eru þess að ríkisborgararéttur sé veittur einstaklingum sem ekki tala íslensku. Einnig eru dæmi um að ríkisborgararéttur sé veittur fólki sem ekki uppfyllir önnur skilyrði laganna, og má sem dæmi nefna einstakling sem fékk ríkisborgararétt árið 2011 án þess að hafa sannað með fullnægjandi hætti hver hann er, en það er 1. skilyrði fyrir veitingu.

Þess utan er þingmönnum allsherjarnefndar í raun í sjálfsvald sett hversu mikla áherslu þeir leggja á að skilyrðin í lögum séu uppfyllt. Málin sem rata inn á borð nefndarinnar eru jaðartilfelli, mál sem ekki uppfylltu almenn skilyrði til að fá afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu og Alþingi er fengið til að skera úr um.

Háð mati þingmanna hverju sinni

Hefð er fyrir því að þrír þingmenn í allsherjarnefnd fjalli um þessi mál í eins konar undirnefnd, en aðrir þingmenn treysti mati þeirra. Yfirleitt er það einn úr hvorum stjórnarflokki og einn úr stjórnarandstöðu.

Í þetta skipti voru það Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, Sjálfstæðisflokki, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Framsóknarflokki, og Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, sem fjölluðu um málið, út frá umsögnum stofnana.

Unnur Brá sagði í samtali við mbl.is í morgun að nefndin hefði komist að sameiginlegri niðurstöðu um að setja sér vinnureglur, við mat á umsóknunum, sem tækju mið af lögunum um veitingu ríkisborgararétts almennt.

„Það er Alþingi sem ákveður þetta og við mættum segja já eða nei við alla, en löggjafinn setur okkur ákveðin viðmið og okkur fannst rétt að fara eftir þeim.“

Fær ríkisborgararétt í fyrsta sinn á ævinni

19 fái íslenskan ríkisborgararétt

Ahmad Al Assan fær íslenskan ríkisborgararétt, en ekki móðir hans …
Ahmad Al Assan fær íslenskan ríkisborgararétt, en ekki móðir hans og litla systir. Ljósmynd/Úr einkasafni
Frá flóttamannabúðunum í Al Waleed í Írak þar sem fjölskyldurnar …
Frá flóttamannabúðunum í Al Waleed í Írak þar sem fjölskyldurnar á Akranesi dvöldu áður en íslensk stjórnvöld buðu þeim hingað.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert