„Ég er mjög ánægð og krakkarnir mínir líka. Við erum öll hlæjandi og glöð,“ segir Lina Falah Ameen Mazar sem fær brátt íslenskan ríkisborgararétt, þann fyrsta á ævinni. Alþingi mun veita 18 af palestínska flóttafólkinu sem komu til Akraness árið 2008 ríkisborgararétt en umsóknum 11 var hafnað.
Alls bárust 56 umsóknir um ríkisborgararétt til allsherjar- og menntamálanefndar í haust og í gær var lagt fram frumvarp þar sem gert er ráð fyrir að 19 einstaklingum verði veittur rétturinn. Þar af eru 4 palestínskar konur og börn þeirra, sem íslensk stjórnvöld buðu hingað til lands úr Al-Waleed flóttamannabúðunum í Írak.
Samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt þarf flóttamaður að hafa búið hér í 5 ár áður en hann getur sótt um. Þau tímamót urðu á þessu ári hjá hópnum á Akranesi, og sóttu þau öll um að fá ríkisborgararétt.
Lina er 33 ára gömul en hefur alla ævi verið ríkisfangslaus og gleðst því einlæglega að verða Íslendingur. Tilfinningarnar eru þó blendnar, þar sem 11 úr hópnum var hafnað. Þau hafa ekki fengið skýringu á því enn hvers vegna.
„Þetta er fyrsti ríkisborgararéttur minn og krakkanna minna og ég er ótrúlega þakklát og glöð en líka mjög leið fyrir vinkonur mínar og börnin þeirra. Við sendum öll inn umsóknir saman í september og ég veit ekki hvers vegna allur hópurinn fékk ekki já,“ segir Lina.
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, segir að þótt þetta sé hópur fólks þá sé hver og ein umsókn skoðuð fyrir sig. Nefndin setti sér að hennar sögn ákveðnar vinnureglur þegar ákveðið var hverjir yrðu samþykktir og hverjir ekki.
„Það er Alþingi sem ákveður þetta og við mættum segja já eða nei við alla, en löggjafinn setur okkur ákveðin viðmið og okkur fannst rétt að fara eftir þeim,“ segir Unnur Brá.
Viðmiðin sem hún vísar til eru í lagaákvæði um veitingu ríkisborgararéttar með stjórnvaldsákvörðun, en þar er m.a. gerð krafa um að umsækjandi standist próf í íslensku, geti framfleytt sér og að ekki hafi verið gert hjá honum árangurslaust fjárnám.
Unnur Brá vísaði í þessi viðmið almennt og sagðist ekki geta tjáð sig um nafngreinda einstaklinga, en benti á að flóttafólkið sem ekki fékk ríkisborgararétt geti sótt um aftur í vor. Umsóknir eru afgreiddar tvisvar á ári.
Börn Linu eru þau Abdullah 15 ára, Mohammed 13 ára, Nadeen 8 ára og Yasmin 4 ára. Samþykki Alþingi frumvarpið verða þau öll löggildir Íslendingar. Lina segir þetta mikið gleðiefni, enda þýðir þetta m.a. að fjölskyldan fær í fyrsta sinn fullt ferðafrelsi og getur heimsótt nánustu ættingja, sem dreifðust víða um lönd í kjölfar stríðsins í Írak.
„Það er skrýtið að vera með fjölskylduna á Íslandi, í Bandaríkjunum og Noregi. Mamma mín og pabbi, systir og þrír bræður búa í Noregi. Ég gat heimsótt þau með flóttamannavegabréf, en nú þegar ég verð orðinn ríkisborgari get ég farið til allra landa,“ segir Lína.
„Systir mín býr í New York í Bandaríkjunum og hún er með fjögur börn sem ég hef aldrei séð. Vonandi kemst ég núna að heimsækja hana og alla krakkana. Ég hef ekki hitt hana í 5 ár.“