Þjóðagrínið vekur heimsathygli

Myndin fræga. Vadon er búinn að tryggja sér höfundarrétt, því …
Myndin fræga. Vadon er búinn að tryggja sér höfundarrétt, því að myndinni hefur verið dreift á netinu án þess höfundar hafi verið getið. mynd/Jérôme Vadon

Þetta byrjaði sem saklaust grín. Mynd sem franskur iðnhönnuður, sem er búsettur á Íslandi, setti á Facebook-síðu fyrr í þessum mánuði. Þriðja útgáfa myndarinnar, sem var birt sl. sunnudag, fór síðan sem eldur um sinu um netheima og vakti heimsathygli, m.a. stórra fjölmiðla.

Einfaldleiki er orð sem á vel við um grín sem hittir beint í mark. Jérôme Vadon bjóst aftur á móti ekki við þeim miklu viðbrögðum sem myndin vakti.

Myndin ber yfirskriftina á ensku „International guidelines for problem solving“, sem útleggja má á íslensku sem „Alþjóðlegar viðmiðunarreglur til að leysa vandamál“. Hún sýnir með einföldum hætti hvernig nokkur ríki takast á við lausn vandamála. Fimm ríki voru á fyrstu myndinni sem var birt í byrjun desember. Fljótlega voru ríkin orðin 10, þar á meðal Ísland og í þriðju útgáfunni eru ríkin alls 22.

Þetta reddast

Á meðan t.d. Þjóðverjar takast á við vanda með beinum hætti og leysa hann, treysta Íslendingar á hina gömlu góðu klisju „þetta reddast“ og forðast þannig vandamálið. Bretar leysa vandamál aftur á móti eftir tedrykkju, Svíar treysta á IKEA-lausn en án árangurs, á meðan Frakkar flækja málin, mótmæla og standa svo uppi með enn fleiri vandamál. Belgar eru þó eflaust einna verst settir, því þeim tekst að snúa lausn upp í vandamál.

Vadon segir að þetta sé vissulega mikil einföldun en á sama tíma búi ákveðinn sannleikur í myndinni.

„Upphaflega byrjaði þetta sem grín um Frakka, því Frakkar eru mjög auðveld skotmörk,“ segir Vadon og hlær. Hann segir að fyrstu viðbrögð þeirra hafi verið á þá leið að segja að sá sem teiknaði þessa mynd vissi greinilega ekkert um Frakkland. Þegar annað kom á daginn breyttist tónninn og þeir viðurkenndu að Vadon hefði hitt naglann á höfuðið. Svona væri ástandið í raun og veru í Frakklandi, og það vissu allir.

„Þeir voru að hlæja að þessu [á Canal+ sjónvarpsstöðinni í Frakklandi], því við vitum að þetta er svona. Ég vil ekki fara út í pólitík, en Frakkar standa frammi fyrir mörgum vandamálum. En stærsta vandmálið er að við erum ófær um að sættast við breytingar,“ segir Vadon.

Ekki bara grín

Hann segist hafa birt þriðju útgáfu myndarinnar á Facebook-síðu sinni sl. sunnudag. Boltinn fór síðan að rúlla hratt og fór hann víða. Myndin sem birtist með þessari frétt er þriðja útgáfa myndarinnar sem fyrr segir. Vadon segir marga hafa beðið sig um að bæta við fleiri löndum. Fjórða útgáfan er í smíðum og að sögn Vadons verður ádeilan beittari.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, en dagblöð og sjónvarpsstöðvar í Frakklandi hafa m.a. tekið við hann viðtal. „Ég var í sjónvarpsfréttunum í Frakklandi í gær. Ég hef einnig farið í viðtöl við fjölmiðla í Bretlandi og í Japan,“ bætir hann við.

„Þetta er gott fyrir sjálfsálitið, en þetta byrjaði nú bara sem grín,“ segir Vadon. Hann bætir við að þrátt fyrir að það hafi ekki verið markmiðið að vekja heimsathygli með þessu spaugi þá stefnir í að það leiði til þess að hann fái fleiri hönnunarverkefni. Aðspurður segist hann almennt hafa fengið mjög góð viðbrögð. 

Vill láta gott af sér leiða

Haldi snjóboltinn áfram að stækka þá hyggst Vadon gefa myndina til samtaka á borð við Amnesty International. En hann vill láta gott af sér leiða. „Ef ég get lagt hönd á plóg til að styrkja góð málefni þá væri það frábært,“ segir Vadon.

Vadon hefur verið búsettur hér á landi undanfarin fimm ár. Hann á íslenska unnustu, er sjálfstætt starfandi og hann segir að sér líði afar vel hér á landi og hann stefnir að því að læra íslensku og sækja um íslenskan ríkisborgararétt. „Ég elska Ísland,“ segir Vadon að lokum.

Þetta mun án efa reddast hjá honum.

Nánar um Vadon.

Jérôme Vadon hefur verið búsettur á Íslandi undanfarin fimm ár, …
Jérôme Vadon hefur verið búsettur á Íslandi undanfarin fimm ár, en hann á íslenska unnustu.
Batman er Batman um allan heim, nema á Íslandi. Þar …
Batman er Batman um allan heim, nema á Íslandi. Þar heitir hann Leðurblökumaðurinn. mynd/Jérôme Vadon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert