Sjálfstæðir Evrópumenn undrast mjög þá stöðu sem aðildarviðræður við Evrópusambandið eru komnar í. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Meginmarkmið allra aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar er að ná stöðugleika í ríkisfjármálum. Í ljósi reynslunnar af tilraunum til þess hingað til er lykilatriði að haldið sé opnum þeim valkosti sem telja má vænlegastan fyrir Íslendinga til framtíðar. Innganga í Evrópusambandið með upptöku evru er augljós leið til þess að ná efnahagslegum stöðugleika á Íslandi, sem hefði í för með sér varanlega kjarabót fyrir alla landsmenn.
Því er mikilvægt að ná málinu úr þeirri kreppu sem utanríkisráðherra hefur komið því í og kjósa um framhald viðræðna strax næsta vor. Ástæðulaust ætti að vera að minna á að slíkar kosningar voru skýlaust loforð formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins fyrir Alþingiskosningarnar síðastliðið vor.“