Kjarasamningar á lokametrum

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, boðaði formenn aðildarfélaga ASÍ til fundar …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, boðaði formenn aðildarfélaga ASÍ til fundar í húsakynnum ASÍ kl. 18. Á fundinum á að ræða tilboð SA og útspil stjórnvalda í skattamálum. mbl.is/Golli

Kjaraviðræður landsambanda ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hófust óvænt aftur í dag og eru kjarasamningar á lokametrum. Komi ekkert óvænt upp á er reiknað með að skrifað verði undir skammtímasamning um helgina. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa samþykkt að gera frekari breytingar á fjárlögum.

Upp úr kjaraviðræðum ASÍ og SA slitnaði 5. desember og í framhaldi af því vísuðu stærstu landssambönd ASÍ kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. Helsti ágreiningur deiluaðila hefur verið um launahækkun til þeirra sem lægstu launin hafa, en forystumenn SA segjast óttast að þær gangi upp allan launastigann og valdi þannig aukinni verðbólgu.

Nýtt útspil stjórnvalda virðist hafa átt þátt í að menn settust í dag aftur niður við samningaborðið og eru samningamenn mjög nálægt því að ljúka samningum, samkvæmt heimildum mbl.is.

Nýtt útspil frá ASÍ

Samtök atvinnulífsins hafa einnig lagt fram nýtt útspil sem forystumenn ASÍ telja betra en það sem lá á borðinu þegar upp úr viðræðum slitnaði.

Atkvæðagreiðslu um fjárlagafrumvarpið var frestað á Alþingi síðdegis. Ástæðan mun vera sú að stjórnvöld fyrirhuga að leggja fram breytingartillögu við frumvarpið. Tillagan er lögð fram til að koma á móts við sjónarmið samningsaðila og greiða fyrir kjarasamningum.

Þó fyrirheit stjórnvalda um breytingar á útfærslu skattalækkana hafi komið málinu á hreyfingu eru ekki allir forystumenn ASÍ sáttir við breytingartillöguna.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur setið á fundi í dag þar sem ræddar eru tillögur um breytingar á lögum um tekjuskatt.

12 mánaða kjarasamningar

Forystumenn landsambanda innan ASÍ sögðu í samtali við mbl.is síðdegis að þó að hreyfing hafi komist á viðræðurnar takist ekki að klára samninga í kvöld, „en vonandi um helgina“. Ekki sé hægt að undirrita samninga fyrr en búið sé að kynna tilboðið fyrir samninganefndum og kalla eftir umboði þeirra til að undirrita samninga.

Kjarasamningarnir sem reiknað er með að verði undirritaðir fljótlega eru til 12 mánaða. Samningarnir fjalla fyrst og fremst um hækkun launa, en mestöllum sérkjarakröfum ASÍ hefur verið ýtt út af borðinu.

Forystumenn ASÍ ræddu saman yfir kaffibolla áður en formannafundurinn hófst.
Forystumenn ASÍ ræddu saman yfir kaffibolla áður en formannafundurinn hófst. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert