Páll Magnússon útvarpsstjóri er með 12 mánaða uppsagnarfrest. Laun hans eru 1.220.777 krónur á mánuði og fær hann þau laun greidd í þessa 12 mánuði.
Ráðningasamningur Páls er dagsettur 4. september 2010. Kjararáð tekur ákvörðun um laun útvarpsstjóra og er nýjasti úrskurður ráðsins frá 29. júní sl. Grunnlaun Páls eru 845.205 krónur á mánuði. Hann fær að auki greiddar 54 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag sem starfinu fylgir. Samtals gera þetta 1.220.777 krónur á mánuði. Árslaun hans eru því 14.649.324 kr.
Tekið er sérstaklega fram í úrskurði Kjararáðs að hafi útvarpsstjóri haldið bifreiðahlunnindum sínum og kjósi að gera það áfram skuli draga verðmæti þeirra, samkvæmt mati ríkisskattstjóra, frá heildarlaunum hans.
Samkvæmt lögum er óheimilt að greiða ríkisforstjórum meira við starfslok en kveðið er á um í ráðningasamningi. Um þetta hafa bæði fjármálaráðuneytið og Umboðsmaður Alþingi tjáð sig.