Reykjavík hættir að styrkja RIFF

Hrönn Marinósdóttir er framkvæmdastjóri RIFF
Hrönn Marinósdóttir er framkvæmdastjóri RIFF Ljósmynd HAG

Menningar- og ferðamálaráð samþykkti á fundi sínum fyrr í vikunni styrkveitingar til menningarmála fyrir næsta ár. Ráðið ákvað meðal annars að styrkja ekki Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Reykjavík, RIFF, og frekar að veita Heimili kvikmyndanna átta milljón króna styrk til að halda sína kvikmyndahátíð.

„Ég fékk að heyra af þessu fyrst í gær,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. „Þetta kemur svo sem ekki á óvart. Alveg frá því að Besti flokkurinn tók við borginni hefur hann haft sérstakan áhuga á að halda lífinu í Bíó Paradís.“

Sjálfstæðismenn í menningar- og ferðamálaráði sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Áður en að henni kom lögðu þeir til að ráðið myndi skoða heildstætt hvernig styrkja til kvikmyndahátíða og reksturs kvikmyndahúsa yrði varið og samþykkti því ekki framlög til RIFF eða Heimilis kvikmyndanna að svo stöddu. „Heimili kvikmyndanna Bíó Paradís fær nú þegar 14.500.000 kr. á ári í rekstrarstyrk frá Reykjavíkurborg en hefur engu að síður verið í rekstrarvanda. Nú liggur fyrir tillaga um að samþykkja 8.000.000 kr. til kvikmyndahátíðar Heimila kvikmyndanna en um leið gerð sú tillaga að styrkja ekki lengur Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík sem haldin hefur verið í 10 ár. Áður en lengra er haldið telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að ræða verði heildstætt aðkomu Reykjavíkurborgar að rekstri kvikmyndahússins og samspil þess við kvikmyndahátíðir í Reykjavík,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Tillagan var felld með fimm atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óskuðu því bókað að ákvörðunin um að styrkja Heimili kvikmyndanna en ekki RIFF þurfi meiri umræðu og rýni. „Að afgreiða málið án frekari umræðu mun vekja úlfúð og ósætti milli listamanna.“

Óskynsamlegt og óskiljanlegt

Hrönn segir að rökin sem hún hafi fengið séu þau að listrænt gildi RIFF sé ekki nægilega mikið og að borgin vilji gefa annarri kvikmyndahátíð tækifæri. „Þeir sem hafa fylgst með RIFF og þeim viðtökum sem hátíðin hefur fengið í gegnum árin vita að fyrri rökin standast ekki. Við höfum borið gæfu til að fá til samstarfs við okkur mjög reynslumikla og hæfa dagskrárstjóra. Meðal annars af þeim ástæðum hefur hátíðin náð árangri á alþjóðlega vísu. Hátíðin er eftirsótt, hún er þekkt vörumerki og skapar miklar gjaldeyristekjur af hundruðum ferðamanna sem koma gagngert á hátíðina auk verkefna sem hún hefur skapað íslenskum kvikmyndaiðnaði.“

Hún segir að ekki hvíli skuldir á hátíðinni og rekstur sé í góðu lagi. „Það er því líka óskynsamleg og eiginlega óskiljanleg ráðstöfun á almannafé að hætta að styrkja hátíðina núna. Framlag Reykjavíkurborgar hefur ásamt framlagi menntamálaráðuneytis verið grunnur undir hátíðina frá byrjun árið 2004.“

Ekki hróflað við faglegu mati

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Besta flokksins í menningar- og ferðamálaráði óskuðu bókað á fundinum að meirihlutinn fari í einu og öllu að tillögu faghóps Bandalags íslenskra listamanna um styrkveitingar á árinu 2014. „Meirihlutinn telur ekki forsendur né þær aðstæður fyrir hendi sem réttlæta að hróflað sé við faglegu mati hópsins.“

Faghópurinn hafði 175 umsóknir til umfjöllunar og alls var sótt um styrki að fjárhæð 268 m.kr. Nefndin lagði til að ráðstafað verði 49.2 m.kr.- til 81 verkefnis á árinu 2014.

Athugasemd kl. 18:26

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, segir að sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna, sem sé í eigu fagfélaga kvikmyndagerðamanna, en ekki Bíó Paradís hafi sótt um styrk til að halda hátíð sem nefnist Kvikmyndahátíð í Reykjavík.

„Það er sú hátíð sem verið er að endurvekja, sem mun sjá um þessa Alþjóðlegu kvikmyndhátíð,“ segir Hrönn og bætir við að það eigi því ekki við í þessu samhengi að tala um Bíó Paradís.

„Þessi hátíð sem Reykjavíkurborg ákvað að styrkja er haldin af fagfélögum kvikmyndagerðarmanna og er unnin í samráði við alla sem málið varðar á Íslandi, sem starfa annað hvort í kvikmyndageiranum eða hafa hagsmuni að gæta í kvikmyndaiðnaði,“ segir Hrönn.

Þá tekur hún skýrt fram að Bíó Paradís eigi ekki í rekstrarvanda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka