Nýr samstarfssamningur milli skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík var undirritaður í morgun. Markmið samningsins er að styrkja starf grunnskólanna í Reykjavík með öflugu og góðu samstarfi foreldra og skóla. Samningurinn felur í sér styrk frá skóla- og frístundasviði að andvirði 8 milljóna króna á árinu 2014.
Birgitta Bára Hassenstein varaformaður SAMFOK´s, og Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, undirrituðu samninginn að viðstaddri Oddnýju Sturludóttur, formanni skóla- og frístundaráðs.
Oddný segir í fréttatilkynningu að samninginn sé ánægjuefni. Hann vitni um traust samstarf foreldrasamtakanna og fræðsluyfirvalda í borginni. SAMFOK sé samstarfsaðili sem vinni að því að efla þátttöku foreldra í skólastarfi, enda sýni rannsóknir að virk þátttaka foreldra skipti miklu máli hvað varðar velferð og námsárangur barna.
Samstarf SAMFOK og skólayfirvalda hefur staðið um árabil og aukist og eflst með hverju ári.