Á svartan markað í stað förgunar

Sígaretturnar lengst til vinstri eru þær sem teknar voru úr …
Sígaretturnar lengst til vinstri eru þær sem teknar voru úr sölu og átti að eyða. Umbúðunum var í kjölfarið breytt (pakkarnir til hægri).

Mikið magn af sígarettum sem átti að farga hjá sorpeyðingarstöðinni Kölku á Suðurnesjum komst aftur í umferð. Innflytjandanum var m.a. boðið að kaupa þær. ÁTVR hefur í kjölfarið breytt verklagsreglum sínum og eyðir ekki lengur tóbaki hjá Kölku. Málið var kært til lögreglunnar á Suðurnesjum. Mbl.is sagði frá því nýverið að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu væri nú að rannsaka eyðingu ávana- og fíknilyfja. Lyfjastofnun sér um að koma slíkum lyfjum til eyðingar í sorpeyðingarstöðinni Kölku.

Farga átti um 4.800 kartonum af sígarettunum en ekki er vitað hversu mörg þeirra komust aftur í umferð. Starfsmenn ÁTVR voru viðstaddir meinta eyðingu, allt þar til búið var að sturta tóbakinu í gryfju með öðru sorpi í sorpeyðingarstöðinni. Þeir fylgdust svo með þegar krabbi sem notaður er til þess að hífa sorpið í brennsluofn, reif og tætti tóbakið niður, að því er virtist.

Starfsmenn áminntir

Framkvæmdastjóri Kölku segir að starfsmenn ÁTVR hafi ekki verið viðstaddir allt ferlið, þeir hafi yfirgefið staðinn áður en tóbakið fór í brennsluofn. „Þeir brugðust sinni skyldu að mínu mati,“ segir Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri. Hann segir að verklagsreglum hjá Kölku hafi verið breytt í kjölfar málsins og stjórn fyrirtækisins gert viðvart. Engum var sagt upp vegna þess en starfsmönnum var veitt tiltal og þeir áminntir. Hann segir að engin sambærileg mál hafi komið upp hjá Kölku. „Það er mjög slæmt að svona hlutir gerist, það er alveg út úr kortinu.“

Fargað vegna myndar af Monroe

Fyrirtækið Áfengi og tóbak ehf. flutti inn 5.000 karton af sígarettutegundinni Merilyn Slim eftir að hafa fengið öll tilskilin leyfi hjá ÁTVR. Sígaretturnar fóru í sölu haustið 2012 en eftir nokkra daga ákvað ÁTVR að stöðva söluna. Ástæðan var sú að á sígarettupökkunum var mynd af leikkonunni Marilyn Monroe og ekki þótti viðeigandi að hafa mynd af fólki á sígarettupökkum. Þar sem Áfengi og tóbak hafði áður fengið leyfi fyrir sölunni var málinu lokið með sáttagreiðslu. Fyrirtækið hélt áfram að flytja tegundina inn, en lét breyta umbúðunum.

Á þeim fáu dögum sem tegundin var til sölu keypti ÁTVR 117 karton og fríhöfnin 100 karton. Þau tæplega 4.800 karton sem eftir voru áttu að fara í eyðingu og kom ÁTVR tóbakinu til sorpeyðingarstöðvarinnar Kölku á Suðurnesjum þar sem tæta og brenna átti birgðirnar. Meint förgun fór fram 15. febrúar 2013.

Boðinn góður afsláttur af miklu  magni

Ekki leið á löngu þar til innflytjanda þeirra, Áfengi og tóbaki, barst ábending um að sígaretturnar, sem átti að eyða, væru falar. Var fyrirtækinu m.a. boðnar þær til kaups með miklum afslætti en aðeins ef það væri tilbúið að kaupa þær í miklu magni. Tilboðið hljóðaði upp á 5.000 kr. fyrir kartonið. Forsvarsmenn fyrirtækisins vita einnig til þess að fleirum hafi verið boðnar sígaretturnar til kaups. Ekki leikur neinn vafi á því að um var að ræða sígaretturnar sem átti að farga. Umbúðirnar eru mjög sérstakar og fengu starfsmenn Áfengis og tóbaks að sjá pakkana hjá þeim sem bauð sígaretturnar til sölu.

Fyrirtækið hafði strax samband við ÁTVR. Samkvæmt upplýsingum ÁTVR var málið þegar kært til lögreglunnar á Suðurnesjum eftir að rökstuddur grunur vaknaði um að sígaretturnar hefðu komist aftur í umferð. Verklagi var einnig breytt til að tryggja örugga eyðingu. Kalka hafði séð um eyðingu tóbaks fyrir ÁTVR um nokkurt skeið áður en þetta mál kom upp. Hún gerir það ekki lengur. 

Lögreglan á Suðurnesjum fékk kæru ÁTVR vegna málsins á sitt borð í maí. Vegna gríðarlegra anna hjá embættinu er rannsókn ekki enn hafin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert