Hjólreiðamenn sem kvartað hafa undan snjómokstri á hjólastígum í Kópavogi hafa fengið þau svör frá bænum þeir verði „að meta aðstæður að vetri, ef nota á reiðhjól sem farartæki“.
Maður sem notar reiðhjól til að komast á milli staða sendi brýningu á Kópavogsbæ fyrir skömmu um að standa betur að því að ryðja snjó af hjólastígum. Bærinn ætti að leggja metnað sinn í að standa jafnvel að baki þjónustu við hjólandi vegfarendur og Reykjavíkurborg.
Í svari Kópavogsbæjar segir: „Verkstjórar Áhaldahússins meta aðstæður vegna snjóa og hálku hverju sinni og á hvern hátt er brugðist við. Á sama hátt hlýtur að þurfa að meta aðstæður að vetri, ef nota á reiðhjól sem farartæki.“
Talsverð umræða hefur skapast á Facebook um þetta svar, en hjólamönnum finnst sumum það ekki bera vott um mikla þekkingu á þörfum hjólandi fólks. Miðað við þjónustuna í Reykjavík sé hægur leikur að hjóla alltaf. Staðan sé önnur í Kópavogi.