Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir nýjan kjarasamning í húsakynnum ríkissáttasemjara nú á tíunda tímanum í kvöld. Samningurinn gildir til 31. desember 2014 og kveður á um 2,8% launahækkun og að lægstu laun hækki um 10.000 kr.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að í kvöld hafi náðst samkomulag sem sé í meginatriðum í samræmi við þá stefnu sem ASÍ setti. „Að ná hér að leggja grunn að stöðugleika, að ná að treysta kaupmátt og vinna áfram í uppbyggingu hans. Að sama skapi líka að treysta betur stöðu þeirra tekjulægstu með meiri hækkunum þar,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is í kvöld.
Gylfi bætti við að þetta væri vissulega búin að vera löng törn. „Ég er mjög ánægður með að það skuli takast að ljúka þessu núna þannig að til launahækkana geti komið í janúar,“ segir hann.
Spurður nánar út í samkomulagið, segir Gylfi: „Við erum að brydda upp á nýrri leið varðandi hækkun lægstu launa. Við teljum það mjög mikilvægt á vettvangi Alþýðusambandsins að það sé alltaf hugsað um það að þeir tekjulægstu geti ekki búið við það að fá einhverja almenna lága prósentu - þó að við sem séum á betra kaupi getum gert það. En það er líka ljóst að við erum hér að leggja af stað í mikla vegferð um það að ná tökum á undirliggjandi óstöðugleika í þessu efnahagslífi okkar; áratuga verðbólga yfir öllum mörkum, vextir í hæstu hæðum. Við einfaldlega verðum að ná saman. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda, launamanna, ríkisstjórnar, sveitarfélaga og allra að við ná tökum á þessu,“ segir Gylfi.
Hann bendir á að margt sé eftir óunnið og því kallist samingurinn aðfarasamningur. „Það þarf að endurskoða peningastefnuna og það þarf að skerpa á þeim atriðum sem stjórnvöld taka ákvarðanir um þannig að það styðji við stöðugleika. Þau koma að þessu, að margra mati ekki með þeim myndugleika sem við hefðum viljað sjá, en engu að síður gerðu þau það. Nú fer í gang þetta samstarf um það að reyna þá að koma þessum stofnanalegu þáttum vinnumarkaðar og stjórnvalda þannig að það vinni með okkur í því að koma hér á stöðugleika,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is.
ASÍ sendi svo frá sér svohljóðandi tilkynningu í kvöld:
„Kjarasamningurinn sem aðildarsamtök Alþýðusambands Íslands undirrituðu í kvöld við Samtök atvinnulífsins er svokallaður aðfarasamningur. Auk launabreytinga gefur samningurinn aðilum 12 mánuði til að undirbúa gerð langtímasamnings sem á að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi og kaupmáttaraukningu til framtíðar. Vinna við undirbúning slíks langtímasamnings hefst strax í byrjun nýs árs. Með samningnum er tekin upp sú nýbreytni að gengið er frá sérstakri viðræðuáætlun sem unnið verður eftir með tímasettum markmiðum um framvindu.
Aðildarsamtök ASÍ settu sér það markmið með nýjum kjarasamningi að auka kaupmátt, hækka lægstu laun umfram önnur laun, tryggja lága verðbólgu og undirbyggja stöðugleika. Þessir kjarasamningar eru mikilvægt skref í þessari stefnumótum, þar sem tekist hefur að tryggja helstu markmiðin. Nýi kjarasamningurinn gildir frá 1. janúar til 31. desember 2014.
<strong>Kaupliðir</strong><br/> <strong>Almenn launahækkun</strong>Hinn 1. janúar 2014 skulu laun hækka um 2,8%, þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Aðrir kjaratengdir liðir hækka um 2,8% á sama tíma.
<strong>Sérstök hækkun kauptaxta</strong>Í stað áðurgildandi kauptaxta komi nýir sem eru hluti samninga viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ. Launataxtar undir 230.000 kr. á mánuði hækka sérstaklega um 1.750 kr. Kauptaxtar gilda frá 1. janúar 2014.
<strong>Lágmarkstekjur fyrir fullt starf</strong>Lágmarkstekjur fyrir fullt starf skv. kjarasamningum viðkomandi aðildarsamtaka ASÍ skulu vera kr. 214.000 frá 1. janúar 2014 fyrir starfsmenn 18 ára og eldri sem starfað hafa fjóra mánuði samfellt hjá sama fyrirtæki.
<strong>Desember- og orlofsuppbót</strong>Desemberuppbót miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 53.600 (VR/LÍV 60.900).
Orlofsuppbót (1.maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er á árinu 2014 kr. 29.500 (VR/LÍV 22.200).
Framlög til fræðslu- og starfsmenntasjóða hækka um 0,1%.
<strong>Helstu ávinningar samningsins</strong>- Almenn launahækkun.
- Sérstök áhersla á hækkun lægstu launa.
- Aukið fjármagn og kraftur settur í starfsmenntamál.
- Efri mörk í lægsta þrepi tekjuskatts hækka úr 256.000 kr. í 290.000 kr. Skatthlutfall í miðþrepi lækkar úr 25,8% í 25,3%.
- Stærstu sveitarfélög landsins hafa tekið áskorun verkalýðshreyfingarinnar og hækka ekki gjaldskrár sínar um áramót.
- Gjaldskrárhækkanir ríkisins verða ekki meiri en 2,5% á ári, ríkisstjórnin mun endurskoða breytingar á gjöldum sem þegar hafa verið samþykktar.
- Unnið verði að því að við framkvæmd kjarasamninga verði miðað við umfrang umsaminna launahækkana ásamt samningsbundnum starfsaldurshækkunum og starfsþróunar þannig að hún samrýmist verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands.
- Ráðist verður í markvissar aðgerðir til stuðnings kaupmætti.
- Samstilltar aðgerðir samningsaðila til að halda verðbólgu innan 2,5% markmiðs Seðlabanka Íslands.
<div>Kjarasamning aðildarsamtaka ASÍ og SA má lesa í heild sinni <a href="http://asi.is/Portaldata/1/Resources/kjarasamningar/122113D_Lokaskjal_Kjarasamningur_AS__SA_2013.pdf" target="_blank">hér</a>.</div><div> </div><div>Yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna má sjá <a href="http://asi.is/Portaldata/1/Resources/kjarasamningar/scan0135.pdf" target="_blank">hér</a>. Beðist er velvirðingar á að síða 2 kemur á undan síðu 1.“</div> <a href="/frettir/innlent/2013/12/21/skref_i_att_ad_nyjum_vinnubrogdum/" target="_blank">Skref í átt að nýjum vinnubrögðum</a>