Veðurstofan sendi í morgun frá sér viðvörun vegna óveðurs sem reiknað er með að gangi yfir um jólin.
Spáð er norðanhvassviðri eða stormi víða um land á aðfangadag, jóladag og fram á annan í jólum. Vindhraði verður á bilinu 15-23 m/s. Veðrinu fylgir talsverð snjókoma og skafrenningur á Norður- og Austurlandi og því hætt við að færð spillist á þeim slóðum.
Vegagerðin bendir á að núna sé stormur og hríð á fjallvegum á Vestfjörðum. Víðast um landið verður væg þíða á láglendi í dag og við þær aðstæður blotnar í snjó og klaka á vegum og flughált verður.