Aðilar vinnumarkaðarins funda enn í Karphúsinu. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vonar að kjarasamningar náist í dag. Hann lýsir óánægju með hvernig ríkisstjórnin hefur nálgast málið.
„Nú er búið að fara yfir samkomulagið í samninganefndum okkar aðildarfélaga. Það er alveg ljóst að það er mikill kurr í fólki, mönnum finnst þetta ekki vera digurt að efni,“ segir Gylfi.
„Engu að síður þá er það niðurstaðan að halda áfram með þetta. Það er mikil reiði, sérstaklega í Starfsgreinasambandinu og Flóabandalaginu þar sem hinir tekjulægstu eru upp til hópa.“
Hann segir þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin er tilbúin að samþykkja, um hækun marka milli lægsta skattþreps og milliþrepsins, ekki gagnast þeim allra tekjulægstu með nokkrum hætti.
„Varðandi framlag ríkisstjórnarinnar er engin launung á því að framsetning mála af hálfu fjármálaráðherra, í að hann hafi komið sérstaklega til móts við þá tekjulægstu, en hafnar því að hækka skattleysismörk er mjög skrýtin framsetning. Það er ekki það sem er verið að gera og það kom fram mikil reiði út af því.“
Sá hópur sem hefur lægstu 10% tekjurnar fá að sögn Gylfa ekkert út úr skattþrepabreytingunum. „Þetta er gert til að þau 10% sem eru með hæstu tekjurnar fái meiri skattalækkun.“
Gylfi segir þetta ekki breyta því að menn ætli að ljúka kjarasamningi, helst í dag. „Við förum í það núna að klára samninga. Við höfum sett markið á að klára samninga í dag, en við skulum sjá til.“ Búið er að koma þeim skilaboðum til ríkisstjórnarinnar að stefnt sé að því að semja í dag.
Gylfi segir ljóst að Samtök atvinnulífsins hafi sýnt greinilegan samningsvilja. Óánægjan sé fyrst og fremst með hvernig ríkisstjórnin hafi haldið á málinu. „Reiðin er ekki vegna framlags atvinnurekenda. Þeir hafa hreyft við málum og komið til móts við okkur þannig að það er í sjálfu sér ánægja með það, þó svo að menn hafi gjarnan viljað sjá hærri tölur. Þeir sýndu klárlega samningavilja í fyrrakvöld, en ríkisstjórnin hefur ekki lagt þessu það lið sem við væntum.“