Kjarasamningar eru í höfn og stefnt er að undirritun þeirra nú í kvöld. Samkomulag hefur náðst um að hækka laun um 2,8 prósent og að lægstu laun hækki um 9.750 krónur. Þetta staðfesti Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, í samtali við mbl.is í kvöld.
„Það er verið að klára að hnýta þessa síðustu enda,“ sagði Þorsteinn.
Fulltrúar fjögurra verkalýðsfélaga lýstu yfir mikilli óánægju með samninginn í samtali við mbl.is og munu þeir ekki skrifa undir samninginn í núverandi mynd.
Haft er eftir Gylfa Arnbjörnssyni, forsta ASÍ, í kvöldfréttum RÚV að lægstu laun hækki um 9.750 krónur. Þetta staðfestir Þorsteinn.
Þorsteinn segir að þetta sé tvískipt krónutöluaðgerð. Laun undir 230.000 hækka að meðaltali um 1.750 kr. Því til viðbótar hækka laun almennt um 8.000 kr. Gildistími samningsins er til 31. desember 2014 að sögn Þorsteins.