Gísli Ólafur Pétursson fór ríðandi inn í Þórsmörk fyrir 60 árum – þá 14 ára. Það var árið 1954 og kominn grunnurinn að Skagfjörðsskála. Þórsmörkin, varin jöklum og straumvötnum, hefur átt hug hans síðan. Hann hefur farið í ótal jeppaferðir um landið, venjulega með fleiri félögum, sem nota um sig samheitið Gíslavinir, og næst er það þrettándaferð í Þórsmörk aðra helgina í janúar.
Ferðirnar hafa staðið yfir í áratugi en nafn hópsins varð til fyrir tilviljun. „Einu sinni vorum við í fjallaferð, fórum í Nýjadal, þaðan norðan við Hofsjökul yfir á Hveravelli. Við vorum liðlega 100 saman. Á Hveravöllum ræddu menn að erfitt væri að skýra öðrum frá því hvaða hópur væri á ferðinni. Ungur maður stakk þá upp á því að kalla þátttakendur Gíslavini og hópinn Gíslavinafélagið og þessi nöfn hafa haldist síðan. Sjálfur var ég utanhúss og heyrði bara klapp og fagnaðarlæti.“
Gísli var skálavörður í Þórsmörk 1965-1973 og fór fyrstu vetrarferðina í Þórsmörk fyrir 50 árum. Í æsku var hann í Stórumörk og horfði á ferðahópa Ferðafélags Íslands leggja þaðan ríðandi inn á hina dularfullu Þórsmörk. Átta til tíu ára átti hann heima í Fljótshlíðinni og var næstu fimm sumrin í Árkvörn í Fljótshlíð – í sjónmáli við Mörkina. Þaðan var riðið í fyrstu heimsóknina inn yfir Markarfljótið árið 1954 – undir forsögn Hreiðars Jónssonar í Árkvörn. „Þetta var mikið ævintýrasvæði á þeim tíma og það að heimsækja það hefur ekki dregið úr ævintýrinu,“ segir hann. „Eini munurinn er að nú er ég á betri tækjum en áður en er orðinn gamall og huglaus í staðinn.“
Hugleysið er ekki meira en svo að Gísli er þekktur fyrir að fara fyrir hópum og finna besta vaðið hverju sinni. „Ég hef vissulega vaðið árnar og fundið vöðin,“ viðurkennir hann. Í því sambandi má nefna að hann hefur haldið námskeið fyrir Ferðafélag Íslands, þar sem fólki er kennt að vaða og finna vöð. „Það er alltaf hættulegt að vaða þegar maður er í stórum fljótum,“ áréttar hann og bendir sérstaklega á að Krossá geti verið lífshættuleg og að Markarfljótið leyfi ekkert kæruleysi.
Gísli segir að þegar menn fari um landið á stórum bílum með 38 tommu dekkjum þurfi ansi mikið að ganga á til þess að hætta sé á ferðum, en engu að síður þurfi alltaf að hafa varann á. Þetta viti þeir sem fari oft um landið. „Við höfum aldrei lent í slysi,“ segir hann.