Útgerðarfyrirtækið Samherji á Akureyri afhenti í gær rúmlega 80 milljónir króna í ýmsa styrki til íþrótta- og tómstundastarfs og annarra samfélagsverkefna á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er í sjötta skipti sem styrkir eru veittir úr Samherjasjóðnum. „Samherji vill efla starf íþrótta- og æskulýðsfélaga enn frekar með því að veita þeim styrki," sagði Helga Steinunn Guðmundsdóttir, formaður Samherjasjóðsins, í hófi sem haldið var í KA-heimilinu. Drjúgur hluti styrkjanna rennur til unglingastarfs og skal þeim fjármunum varið til að lækka æfingagjöld barna og unglinga og/eða til að lækka kostnað við keppnisferðir þeirra á yfirstandandi ári eða styrkja starfið með öðrum hætti, að sögn Helgu Steinunnar.
Árið 2008 voru liðin 25 ár frá því að Akureyrin EA, fyrsta skip Samherja, fór í sína fyrstu veiðiferð og rekstur félagsins hófst. Helga Steinunn rifjaði upp að af því tilefni voru valin verkefni styrkt með fjárframlagi og jafnframt veitti Samherji ýmsum íþróttafélögum á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu fjárstyrki í þeim yfirlýsta tilgangi að stuðla að því að sem flest börn og unglingar gætu stundað þær íþróttagreinar sem hugur þeirra stæði til, óháð efnahag heimilanna.
„Það hefur margoft komið fram að styrkveitingarnar í desember 2008 voru hugsaðar sem einstök afmælisgjöf. En í ljósi þess hve vel þeim var tekið og hversu mikil þörf var fyrir þær, hafa stjórnendur félagsins endurtekið leikinn árlega síðan. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér en munum meta stöðuna ár frá ári hvað styrkveitingarnar varðar líkt og svo margt annað,“ sagði Helga Steinunn.
Íþróttir mikilvægur þáttur
„Ég vil ítreka það sem margoft hefur verið sagt að þátttaka barna og unglinga í íþróttum er ómetanlegur þáttur í forvörnum og uppeldi. Þessi þáttur er mikilvægari nú en nokkru sinni fyrr því ofþyngd og offita eru vaxandi vandamál í hinum vestræna heimi. Sérfræðingar segja að ofþyngd og sjúkdómar sem af henni leiða sé stærsta heilbrigðisvandamál nútímans. Og við Íslendingar tökum allt með trompi eins og dæmin sanna! Við setjum ekki bara heimsmet í áhorfi á Euruvision eða í farsímanotkun, eða í guð má vita hverju – auðvitað miðað við höfðatölu – heldur sýna nýjustu mælingar að við erum þyngsta þjóð Evrópu og mjög ofarlega á heimslistanum! Það er því brýnna en nokkru sinni fyrr að hvetja til og stuðla að aukinni hreyfingu barna okkar og ungmenna.“
Hluti styrkja Samherja rennur til meistaraflokka íþróttafélaga á svæðinu.
Helga Steinunn nefndi að auki þrennt: Samherji varð fyrr á árinu einn aðal styrktaraðili Special Olympics á Íslandi fram yfir alþjóðaleika samtakanna árið 2015 og nemur styrkurinn fimm milljónum króna á ári í þrjú ár; endurhæfingadeild Sjúkrahússins á Akureyri í Kristnesi fær nú þrjár milljónir til kaupa á tækjum og búnaði og loks tilkynnti hún um 500.000 kr styrk til Jóhanns Þórs Hólmgrímssonar, sem er 19 ára gamall hreyfihamlaður Akureyringur. Hann stundar skíðaíþróttina af kappi og verður meðal keppenda á vetrarólympíumóti fatlaðra í Sochi í Rússlandi í febrúar á næsta ári.
Heimsmet
Tveir dagar hafa fallið úr vinnslu hjá Samherja frá 30. janúar á þessu ári þar til í gær, fyrir utan saumarleyfi, að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins. Hann fullyrðir að þetta sé heimsmet.
„Ég er þakklátur fyrir árið sem er að líða. Við vitum öll að hafið er síbreytilegt. Það er blítt eina stundina en getur verið ógnvænlegt þá næstu. Ég hef stundum hælt mér af því að hafa á góðri liðsheild að skipa. Á þessu ári náðum við þeim einstæða árangri að okkur tókst að halda uppi vinnslu frá 30. janúar og til dagsins í dag ef undan eru skilin sumarleyfi. Samtals á árinu féllu niður tveir dagar úr vinnslu. Þetta næst ekki nema með frábærri samvinnu allra starfsmanna sjómanna, landsvinnslufólks og sölufólks. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta hefur engum tekist, þá er ég ekki bara að tala um Ísland heldur allstaðar annarsstaðar. Þetta er því ekki bara Íslandsmet heldur einnig heimsmet,“ sagði Þorsteinn Már í hófi Samherja í KA-heimilinu í gær.
Í mörg horn að líta
Þorsteinn Már tók lítið dæmi um hvað það þýðir að taka þátt í alþjóðlegum sjávarútvegi. „Menn eru á vaktinni alla daga, allan ársins hring, á ólíklegustu tímum sólarhringsins, til sjós og lands. Og við fylgjumst með ólíklegustu hlutum. Í Asíu eru menn að fara á fætur þegar við í Evrópu erum að fara að sofa og Bandaríkin eru á allt öðrum tíma. Markaðir okkar eru úti um allan heim.
Núna á fimmtudagsmorguninn áttum við að afhenda fisk í Boulogne í Frakklandi klukkan 9 að morgni. Sá fiskur fór með bíl frá Aberdeen í Skotlandi um Ermarsundsgöngin til Frakklands. Vegna umferðartafa þar komst fiskurinn ekki til skila fyrr en kl. 15 þann dag. En allan morguninn var starfsmaður markaðsdeildar Samherja að fylgjast með umferðinni í Ermarsundsgöngunum! Það má því með sanni segja að í mörg horn sé að líta“