Drífandi, stéttarfélag í Vestmannaeyjum, skrifaði ekki undir fyrirliggjandi kjarasamninga í gær. Félagið segir að samningurinn og samkomulagið við ríkisstjórnina geri ekkert annað en auka enn misskiptinguna í þjóðfélaginu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Drífandi hefur sent frá sér vegna endurnýjar kjarasamninganna í gær.
Hún er svohljóðandi:
Drífandi stéttarfélag skrifaði ekki undir fyrirliggjandi kjarasamninga. Fyrir því liggja ótal ástæður en nefna má eftirfarandi:
- Launahækkanir skiptast afar óréttlátt niður. Þeir sem hafa lægst laun fá fæstar krónur en þeir sem mest hafa fyrir, fá mestu hækkanirnar.
- Einnig fá þeir sem minnst hafa launin alls engar skattalækkanir en þeir sem mest hafa launin fá mestu skattalækkanirnar.
- Ekkert er tekið á getu útflutningsatvinnugreinanna til að greiða starfsfólki sínu mun meiri launahækkanir en samningurinn innifelur, reyndar eru svo litlar hækkanir að gert er grín að.
- Samningur þessi og samkomulagið við ríkisstjórnina gerir ekkert annað en auka enn misskiptinguna í þjóðfélaginu. Hinir efnameiri verða enn efnameiri, eignir munu safnast á fárra hendur og láglaunafólk er skilið eftir með örfáar krónur.
- Samningurinn felur einnig í sér ákvæði um að þær starfgreinar sem eftir á að semja um taki sömu smánarkjörum og bindur þær í klafa lágra launa. Telur Drífandi stéttarfélag sig algjörlega óbundið af því ákvæði.
- Drífandi þakkar félögunum sínum innan Starfsgreinasambandsins fyrir samvinnuna og vinnuna í aðdraganda samninganna. En því miður er niðurstaðan úr þeirri vinnu óásættanleg fyrir launafólk á Íslandi og því ekki hægt að skrifa undir samninginn.