Gagnslítil spákort

Þetta kort sýnir stöðuna á landinu kl. 18. Tölurnar sem …
Þetta kort sýnir stöðuna á landinu kl. 18. Tölurnar sem sýna vindstyrk eru hins vegar stórlega vanáætlaðar. mynd/Veðurstofa Íslands

Það er óhætt að fullyrða að veðurkortin á vef Veðurstofu Íslands séu þægileg leið til að kynna sér veðurspána. Gagnsemi kortanna verða harla lítil þegar veður breytist snöggt og fer hratt versnandi. Upplýsingarnar sem kortin birta varðandi vindstyrk reynast þá í allflestum tilvikum rangar.

Við svona aðstæður eru það textaspárnar á vef Veðurstofunnar sem gilda, en þær eru gefnar út eftir að veðurfræðingar hafa farið yfir öll fyrirliggjandi gögn.

Elín Björg Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir í samtali við mbl.is að það komi skýrt fram á vef Veðurstofunnar að textaspáin gildi sé munur á textaspá og sjálfvirkum spám. „Það er í raun og veru stutta útgáfan af því hvert fólk á að leita.“

Ná ekki í skottið á sér

Þær veðurupplýsingar sem sjá má á kortunum byggja á útreikningum tölvulíkana.

„Líkön bremsa vind yfir landið alveg gríðarlega mikið. Það er í sjálfu sér alveg sama hvað líkan þú myndir nota. Þannig að þessar staðaspár virka ágætlega þegar það er lítið um að vera, þegar það eru litlar breytingar. Þegar það er hæglætisveður og ekki mikið um t.d. áhrif vegna fjalla. En um leið og vindur fer að vaxa, sérstaklega ef breytingar gerast hratt, þá nær þær ekki í skottið á sér,“ segir Elín og bætir við að þá birti kortin ekki réttar upplýsingar.

Aðspurð segir hún að þetta snúist aðallega um vindstyrk sem kortin sýna og það sé í raun alvarlegasti gallinn við þau. 

„Það sem ruglar fólk er þegar það t.d. sér að á Bolungarvík sé norðaustan 13 metrar á sekúndu þegar við erum að spá 25. Þá er verið að taka punkt í þessu líkani úr einu gili inni í djúpi, og það getur vel verið á akkúrat á þessum punkti séu 13 metrar á sekúndu, en það er ekki lýsandi fyrir veðrið í kring. Þú getur því ekki farið eftir þessari spá,“ segir Elín. 

Sömu sögu að segja um Yr.no

Hún segir að sömu sögu megi segja um norska veðurvefinn Yr.no. „Ef þú lest smáaletrið þar þá sérðu að spápunkturinn sem þú ert að skoða er kannski 35 km í burtu. Þú gætir ýmist verið uppi á fjalli eða úti á sjó,“ segir Elín og bætir við að menn verði að taka þessum kortum með miklum fyrirvara þegar þegar veðrið breytist snögglega líkt og nú.

„Ástæðan fyrir því að þetta [veðurkortin] hefur ekki verið tekið út er að þetta virkar faktískt ágætlega á sumrin og þegar það er lítið um að vera, sem er kannski í 80% tilfella. En það eru þessi 20% þar sem við lendum í vandræðum,“ segir Elín að lokum.

Heimasíða Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert