„Mér er gróflega misboðið“

Kjarasamningarnir voru undirritaðir og handsalaðir sl. laugardagskvöld. Björgólfur Jóhannsson, formaður …
Kjarasamningarnir voru undirritaðir og handsalaðir sl. laugardagskvöld. Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, og Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, takast í hendur. Magnús Pétursson ríkissáttasemjari stendur á milli þeirra. mbl.is/Golli

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ásakanir um aukna misskiptingu vegna nýgerðra kjarasamninga hafi misboðið honum gróflega.

Gylfi fer ítarlega yfir stöðu mála í pistli sem hann birtir á vef ASÍ.

„Fimm félög innan Starfsgreinasambands Íslands ákváðu að skrifa ekki undir kjarasamning sambandsins á laugardagskvöldið, en ákváðu þó að standa að samningunum, því að félögin drógu ekki til baka umboð sem þau höfðu falið Starfsgreinasambandinu til að gera kjarasamning fyrir sína hönd sem þeim var þó í lófa lagið.  Í þessum félögum eru ríflega 3.000 félagsmenn af þeim 81.000 félagsmönnum sem umræddir kjarasamningar ná til, eða um 4,7%,“ skrifar Gylfi.

„Óánægja þessara forystumanna með innihald samninga var ekkert einsdæmi, margir voru ósáttir með afstöðu ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim tekjulægstu. Það var hins vegar greinilegt að forystumenn þessara félaga voru sammála félögum sínum um stöðumatið, að ekki væri líklegt að þeir gætu sótt eitthvað meira með því að afturkalla umboðið til gerðar kjarasamninga því það gátu þeir gert alveg fram að undirritun samninganna kl. 21:00 á laugardagskvöldið. Því undirritaði meirihluti samninganefndar Starfsgreinsambands Íslands kjarasamninganna fyrir hönd allra aðildarfélaga SGS og félagsmenn þessara stéttarfélaga munu ásamt öðrum fá tækifæri til þess að lýsa skoðun sinni á þessum samningum í janúar. Það vekur undrun, í ljósi þess að framangreindir forystumenn ákváðu að afturkalla ekki umboðið til gerðar kjarasamnings, hvernig sumir þeirra hafa síðan af mikilli vandlætingu og virðingarleysi ráðist á félaga sína . Um þverbak keyrir þegar þeir fullyrða að þessir kjarasamningar, þar sem enn einu sinni er lögð áhersla á að hækka lægstu laun hlutfallslega meira en önnur laun, leiði til aukinnar misskiptingar og að ég og aðrir forystumenn hafi valið þessa leið vegna eigin hagsmuna,“ skrifar hann ennfremur.

„Ég verð að viðurkenna að  mér er gróflega misboðið, ekki bara framganga þessara félaga minna heldur ekki síður hvernig fjölmiðlar hafa hampað þessum aðilum án þess að leita eftir skoðunum forystumanna þeirra 95% félagsmanna sem ákváðu að axla fulla ábyrgð á stöðumatinu með undirritun kjarasamninganna,“ skrifar Gylfi.

Hann segir merkilegt að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem komið hafa fram, því það sé ekki svo að verkalýðshreyfingin hafi sjálfdæmi um launahækkanir.

„Þvert á móti er hér um nokkuð harða hagsmunabaráttu að ræða og ekki sjálfgefið hver niðurstaðan er. Það má alveg segja það hér að SA var lengst af klossfast í því að launahækkanir yrðu ekki meiri en 2% og þeir höfnuðu alfarið krónutöluhækkun á lægstu launin. Niðurstaðan varð hins vegar sú að lægstu laun hækkuðu um ríflega 5% þegar ASÍ hafði náð inn krónutöluhækkuninni,“ skrifar Gylfi.

Pistill Gylfa í heild.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert