„Ristaðar möndlur! Gleðileg jól!“

Efst í Bankastrætinu, sem í seinni tíð hefur fengið uppnefnið Flíspeysustræti, leynist ein skemmtilegasta viðbótin við aðventuundirbúning miðborgargesta á síðari árum.

Þar standa þeir  Mikael Marinó Rivera, Ævar Örn Magnússon og Guðmundur Hrafn Arngrímsson í öllum veðrum og rista möndlur að dönskum sið. Kanillyktina leggur yfir bæinn, og jólastemningin verður örlítið evrópskari fyrir vikið. Þeir byrjuðu að rista og selja möndlur fyrir fjórum árum.

Eftir að hafa verið í námi í Danmörku þótti þeim eitthvað vanta upp á jólastemninguna í borginni. Hugmyndin að möndlubásnum kviknaði í útikennslu í Sæmundarskóla. „Svo ákváðum við yfir einum kaffibolla á kennarastofunni í Sæmundarskóla að prófa þetta,“ segir Mikael Marinó.

 „Snillingurinn Guðmundur á heiðurinn að básnum,“ skýtur Ævar Örn inn í. „Ef við hefðum smíðað hann, þá liti hann ekki svona vel út,“ segir Mikael Marinó. „Það er alveg á kristaltæru.“

Í þessu gellur í Ævari „Ristaðar möndlur! Smakk í skálinni! Gjöriði svo vel!“ og jólakór hefur upp raust sína á bakvið þá.

Mikael segir að þeir standi ekki alla aðventuna á horni Bankastrætis og Skólavörðustígs, þó svo þeir séu þar á síðustu metrunum. „Við höfum verið fyrir utan IKEA og í Smáralindinni, en þetta er heimavöllurinn.“

„Þetta er bara orðinn hluti af jólastemningunni í miðbænum,“ segir Mikael Marinó, sem vill greinilega ekki gera of mikið úr eigin ágæti. Allir þeir sem blaðamaður ræddi við eru hins vegar á einu máli um að möndlusölumennirnir séu frábær viðbót við jólaundirbúninginn og vonast til að þeir verði á sínum stað um ókomna tíð.

„Við verðum hér aftur að ári,“ segir Ævar Örn. „Þetta er bara svo gaman. Maður hittir líka alla sem maður þekkir og sparar sér að senda jólakort.“

„Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við Reykjavíkurborg. Jakob Frímann hefur verið mjög hjálplegur í þessu öllu saman,“ segir Mikael Marinó. Þeir bæta við að þeir láti veðrið ekkert á sig fá. „Meðan það er fólk, þá erum við, alveg eins og jólasveinninn, hann mætir alltaf.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka