Áætlað er að það taki um fjóra klukkutíma að flytja ferðamennina sem voru þremur litlum rútunum við Sandfell í dag, en rúður brotnuðu í tveimur rútum. Bryndrekinn, sem notaður er við flutningana, tekur aðeins níu menn í einu og þarf hann að fara a.m.k. fimm ferðir.
Ferðamennirnir, sem voru á vegum íslenskrar ferðaskrifstofu, bíða í sjoppunni í Freysnesi, en þar er mjög slæmt veður. Rúðurnar í rútunum brotnuðu vegna þess að grjót rigndi yfir bílana í rokinu.
Hörður D. Björgvinsson, formaður Björgunarsveitarinnar Kyndils á Kirkjubæjarklaustri, segir ekkert vit í að vera á ferð á þessu svæði. „Það hafa fleiri bílar verið þarna á ferð. Við snúum við öllum bílum sem við mætum. Þetta er ófært fyrir alla venjulega bíla. Þeir verða örugglega fyrir lakkskemmdum í rokinu og eins geta rúður brotnað og bílar fokið út af. Vindhraði hefur farið upp í 33 m/sek við Núpinn og það er hvassara fyrir austan. Það er enn að hvessa,“ segir Hörður.
Engin úrkoma fylgir veðrinu og eru vegir á þessu svæði marauðir. Við þessar aðstæður nær vindurinn að þeyta bæði sandi og grjóti sem skapar miklar hættu fyrir ökumenn.
Lögreglan ráðleggur fólki frá því að vera þarna á ferð.