Kannast ekki við 12% samningsmarkmið

Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Eftirgjöf íslenskra stjórnvalda í makríl gangvart ESB veldur miklum vonbrigðum og  veldur þjóðarbúinu tjóni upp á fleiri milljarða króna. Sýnir þessi undanlátssemi gagnvart ESB veika og tvístígandi fætur ríkisstjórnarinnar í samskiptum við ESB. Verður að vona að Færeyingar standi á sínum hlut og komi í veg fyrir að slíkt samkomulag nái fram að ganga.“

Þetta segir Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á heimasíðu sinni í dag vegna frétta af þvíóformlegt samkomulag sé á milli Evrópusambandsins og íslenskra stjórnvalda um lausn á makríldeilunni en samkvæmt því fengi Ísland 11,9% árlegs makrílkvóta. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi kom fram að óopinbert samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda hafi verið 12% á meðan Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur, stýrði viðræðunum fyrir Íslands hönd.

„Falla nú sjálfir enn lengra í duftið“

Þetta kannast Jón hins vegar ekki við. Hugsanlegt sé að rætt hafi verið um slíkt í utanríkisráðuneytinu en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafi farið með forræði málsins og í hans ráðherratíð, sem var á sama tíma og Tómas stýrði viðræðunum, hafi frá upphafi verið lögð áhersla á 16-17% hlutdeild að lágmarki. Mismunurinn jafngildi því að Íslendingar gefi eftir 50-60 þúsund tonn af makríl. Gagnrýnir Jón eftirmann sinn Sigurð Inga Jóhannsson og Framsóknarflokkinn harðlega fyrir að bogna undan hótunum Evrópusambandsins.

„Öðruvísi mér áður brá þegar Framsókn gagnrýndi Steingrím J. [Sigfússon, fyrrverandi atvinnuvegaráðherra] hart fyrir eftirgjöf við ESB í makrílnum en falla nú sjálfir enn lengra í duftið,“ segir hann og bendir á að ESB hafi „beitt hótunum og ólögmætum yfirgangi“ í makríldeilunni bæði gagnvart Íslendingum og Færeyingum.

Grein Jóns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka