„Það stefnir í mikla aðsókn. Allavega 120 manns. Það er alls kyns fólk sem kemur til okkar. Heimilislausir, hælisleitendur, einmana fólk og bara fólk af öllum gerðum,“ segir Sigurður Hörður Ingimarsson, forstöðumaður Hjálpræðishersins í Reykjavík, í samtali við mbl.is en herinn heldur árvissa jólaveislu í dag aðfangadag klukkan 18:00 í höfuðstöðvum sínum í höfuðborginni.
„Þetta hefur haldist á þessu róli í mörg ár en síðan koma alltaf einhverjir án þess að skrá sig þannig að við vitum aldrei alveg nákvæmlega hversu margir koma. Þeir geta því orðið talsvert fleiri. En við erum með fullt af sjálfboðaliðum hérna að hjálpa okkur sem skipir sköpum. Heilu fjölskyldurnar. Margir koma á hverju ári eins og til að mynda kokkarnir. Síðan koma aðrir og spila fyrir okkur jólatónlist,“ segir hann.
Þá hafi margir þekktir einstaklingar í samfélaginu sömuleiðis haft samband við hann fyrir jólin og boðið fram aðstoð sína. „Það er mikill hugur í fólki að gera eitthvað fyrir aðra sem er auðvitað frábært. Þetta er jólaandinn,“ segir Sigurður að lokum.