Vaggan og varnarleysið

Vídalínskirkja
Vídalínskirkja mbl.is/Ómar Óskarsson


Jólin er tími tilfinninganna og við nálgumst jólaundrið frekar með hjartanu en höfðinu að sögn Kristínar Þórunnar Tómasdóttur, prests í Vídalíns- og Garðakirkju. Hún ritaði fallega jólahugleiðingu fyrir mbl.is sem birtist hér að neðan.

Mbl.is óskar lesendum sínum gleðilegrar hátíðar og friðar um jólin.

„Skólabörnin sem heimsóttu Vídalínskirkju á aðventunni voru með það á hreinu hvers konar staður fjárhús er: Heimili kinda og skjól fyrir búfénað. Varla staður fyrir manneskjur að dveljast á, hvað þá fyrir lítið barn að koma í heiminn. Samt var fjárhús fyrsta heimili Jesú. 

Þarna varð jólasagan tilefni til samtals um ólíkar aðstæður barna og þá staðreynd að ekki eiga allir heimili eða öruggt skjól. Það þekktu krakkarnir líka, úr fréttum utan úr heimi en líka úr nærumhverfi sínu.

Sagan af Maríu, Jósef og Jesúbarninu lifnar við um hver jól. Jólasagan rúmar andstæður og miðlar heimssýn þar sem fulltrúar hinna hæstu og hinna lægstu koma fyrir. Persónur og leikendur koma frá himni og jörðu og tilheyra efstu stéttum lærdómsmanna, fjárhirðum af lægstu stéttum samfélagsins, fólki á ferð fjarri heimahögum og heimamönnum.

Inn í þessar aðstæður fæðist Jesús sem í kristinni trú tjáir nærveru Guðs í heiminum með alveg sérstökum hætti. Barnið í jötunni birtir varnarleysi manneskjunnar, sem er lítil og lifir bara vegna tengsla og kærleika. Þegar við orðum jólaundrið með þeim hætti að Guð hafi orðið manneskja í Jesú Kristi felur það í sér róttæka sýn á valdaframsal hins hæsta og algjöra samstöðu með manneskjunni í viðkvæmustu aðstæðum hennar.

Jólin eru tími tilfinninganna og við nálgumst jólaundrið frekar með hjartanu en höfðinu. Leyndardómur og kraftur jólasögunnar felst í því að á hverjum tíma speglum við okkur sjálf í henni og sjáum það kallast á við hugmyndir okkar um það sem er ekta, alvöru og varanlegt.

Við erum alla ævina að vinna með tilfinningar okkar. Verkefni fullorðinsjólanna er ekki síst að vinna með tilfinningar bernskujólanna, vinna úr minningum og upplifunum sem varpa ljósi á jólin hér og nú og móta upplifun okkar og lífið allt. Í tilfinningavinnunni horfumst við í augu við varnarleysið sem felst í því að vera manneskja.

Jólatíminn er sérstakastur tíma vegna þess að þá fæddist Jesús. Jólin eru tími til að horfa til hans, sem tjáir lífið og nærveru Guðs í heiminum á einstakan hátt en líka þannig að allir fá hlutdeild í henni í varnarleysi sínu. Töfrar jólanna lifna og snerta okkur þegar hjartað okkar fær að vera vaggan hans.“

Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur í Vídalíns- og Garðakirkju
Kristín Þórunn Tómasdóttir prestur í Vídalíns- og Garðakirkju mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert