Aðstoða fólk á Vesturlandsvegi

Mikið er nú að gera hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Á milli 20-30 bílar sitja fastir á Þingvallaleið og annað eins á Vesturlandsvegi. Þar er bíll við bíl frá Þingvallavegi niður í Kollafjörð og hafa orðið árekstrar og bílar ekið útaf.

Vegagerðin var að tilkynna um lokun Vesturlandsvegar en þar er fljúgandi hálka, hvasst og lítið skyggni. Sex sérútbúnir jeppar og snjóbíll frá björgunarsveitum eru notaðir við verkið en ljóst er að flytja þarf tugi manna úr bílum sínum í bæinn.

Einnig er verið að sækja fólk í bíl sem situr fastur á Hafravatnsleið og Björgunarsveitin Ársól á Reyðarfirði aðstoðar nokkra ökumenn á Fagradal.  Þar er nokkur snjór, skyggni slæmt og vindur fer í 25 m/sek í hviðum. Þorbjörn í Grindavík er við störf og aðstoðar ferðafólk við Festafjall austan Grindavíkur. Gríðarleg hálka er á svæðinu og þegar björgunarsveitin kom að voru bílarnir þversum á veginum. Þeir voru losaðir og fylgt til Gindavíkur.

Dagrenning á Hvolsvelli og Víkverji í Vík í Mýrdal hafa fylgt nokkrum bílum sem voru á ferð milli Hvolsvallar og Víkur þangað sem ökumenn og farþegar geta fengið gistingu á meðan veðrið gengur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert